Í gær lauk Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur GKG, leik á Estoril Open mótinu á Portúgal en mótið er hluti af evrópsku mótaröðinni.

Birgir hafði leikið þokkalega framan af móti, fyrstu tveir hringirnir hljóðuðu upp á 69 og 70 högg og komst okkar maður auðveldlega í gegnum niðurskurðinn á þremur höggum undir pari. Þriðja daginn datt okkar maður aldeilis í stuð og átti sinn besta hring í langan tíma, 66 högg eða fimm högg undir pari. Því miður náði Birgir ekki að fylgja eftir þessum hring því síðasti og fjórði hringurinn var honum erfiður, og endaði hann á 77 höggum þann daginn. Birgir lauk því leik á mótinu á tveimur höggum undir pari og endaði í 60. sæti ásamt nokkrum öðrum kylfingum.

Ljóst er að Birgir hefur sýnt að hann er óðum að nálgast sitt fyrra form, enda fékk hann fullt af fuglum um helgina. Helsti vandi hans er aftur á móti stöðugleikinn, en ekki verður annað sagt að of mikið af skollum hafi fylgt fuglunum. Nú er því um að gera fyrir okkar mann að takmarka blessaða skollana og þá ættu honum að vera allir vegir færir.