Sigmundur Einar Másson er í góðum málum eftir fyrsta hring á 1. stigi úrtökumótsins, eða Pre-qualifying, fyrir bandarísku PGA-mótaröðina á Jennings Mill Country vellinum í Bogart í Georgíu. Hann lék hringinn í kvöld á 73 höggum, eða einu höggi yfir pari og er í 11. -18. sæti af 77 keppendum. Simmi var mjög sáttur við hringinn og sagði að þetta væri góð byrjun. "Ég var að slá mjög vel og get ekki annað en verið sáttur. Það var töluverður vindur á vellinum í dag, svona ein og hálf kylfa, og skorið því ekki eins gott og ella," sagði Sigmundur í samtali við Kylfing.is í kvöld. Spilaðir eru fjórir hringir í mótinu án niðurskurðar og komast 39 efstu inn á 2. stig úrtökumótsins.

Simmi byrjaði á 10. teig í dag og fór vel af stað, fékk par, fugl og fugl og var þá kominn 2 undir eftir aðeins þrjár holur. Þá sagðist hann hafa tekið rangt kylfuval á tveimur holum í röð sem kostuðu hann tvo skolla. Síðan fékk hann fugl á 16. holu (hans 7. í dag) og lék því fyrri níu á einu höggi undir pari. Þá fór hann yfir á 1. teig og fékk fugl og var þá aftur kominn 2 undir eftir 10 holur. Síðan fékk hann par á næstu fjórar og tvöfaldan skolla á 6. holu (sem var hans 15. í dag), sló út fyrir vallarmörk af teig og þurfti að taka víti. Þá kom skolli á næst síðustu holunni og var það að hans sögn rangt kylfuval. Hann lék því síðari níu á 3 höggum yfir pari, kom inn á 73 höggum eða einu höggi yfir pari.

Simmi sagði að völlurinn væri mjög krefjandi, trjágróður umhverfis brautirnar og röffið nokkuð þétt, eða um 3-4 tommur. Þá sagði hann flatirnar á vellinum yfirleitt litlar, þetta 20-25 jardar. Flatirnar væru þó mjúkar og tækju vel við boltanum. Það væri því afar mikilvægt að vera á braut, eins og reyndar alltaf.

Alls eru fjögur stig á úrtökumótinu fyrir PGA-mótaröðina. Fyrsta mótið er 72 holur og einnig annað og þriðja stigið, en í lokaúrtökumótinu eru spilaðir sex hringir. Ef Sigmundur ætlar að fara alla leið var þetta aðeins fyrsti hringurinn af 18 í leiðinni inn á PGA-mótaröðina. Hann á því langan og strangan veg fyrir höndum á næstu vikum. Hann segir auðvitað stefnuna að fara alla leið, enda telur hann sig tilbúinn til þess.

Á fyrsta stigi úrtökumótsins er leikið á sex völlum, þremur í þessari viku og þremur í næstu viku. Af hverjum velli komast 37-39 efstu kylfingarnir inn á 2. stig úrtökumótsins.

Við óskum Simma alls hins besta í þessu mikilvæga móti