Íslensk golfsaga er að mörgu leiti mögnuð og þá sérstaklega allar smásögurnar sem allt of sjaldan eru sagðar.

Árið 1985 tók Arnar Már Ólafsson, núverandi afreksþjálfari í GKG þátt í alþjóðlegu unglingamóti í Belgíu, meðan annarra Íslendinga sem tóku þátt í þessu móti var Helgi Anton Eiríksson sem sendi á okkur myndina af úrslitunum. Hluti af mótinu var keppni í lengsta upphafshögginu. Þá var búnaðurinn allt annar en við þekkjum hann í dag, notast við trékylfur sem voru með mun minni haus en nú tíðkast. Hver keppandi hafði þrjá möguleika og Arnar var einn af þeim fyrstu að slá.

Léttleikinn var í fyrirrúmi hjá okkar manni, hann brosti til allra sínu „signature“ brosi. Til að ná meiri krafti í sveifluna lyfti Arnar Már vinstri löppinni í aftursveiflunni og náði þannig John Daly sveiflunni tveimur árum áður síðarnefndur steig fram á sjónarsviðið. Fyrsta höggið hjá Arnari var misheppnað, hann kenghúkkaði hann út í skóg og annað höggið fór lengst til hægri. Svo lét Arnar Már vaða í þriðju og síðustu tilraun, lagði allt í það og boltinn sveif í fallegu draw-i lenti á braut og rúllaði áfram á henni miðri. Í gegnum skruðningana í talstöðvum var tilkynnt að höggið væri 288 metrar!

Þá var komið að Jose Maria Olazabal. Fyrsta höggið var glæsilegt, lenti á miðri braut og í gegnum skruðningana í talstöðvarkerfinu var tilkynnt að höggið væri 282 metrar. Einbeitingin skein af Spánverjanum þegar hann gerði sig tilbúinn fyrir sitt annað högg, það var nákvæmlega eins framkvæmt, lenti á miðri braut og endaði nánast á sama stað og fyrra höggið 282 metrar. Það var mikil spenna í loftinu fyrir þriðja höggið, vanaferlið breyttist hins vegar ekkert hjá Jose, einbeitingin sú sama en átökin samt meiri í sveiflunni, boltinn þaut af stað og Arnar Már var sannfærður um að þarna væri hann að missa forystuna. Boltaflugið var engu að síður nákvæmlega það sama, boltinn lenti á svipuðum stað og rúllaði að hinum tveimur boltunum og niðurstaðan var … 282 metrar.

Þessi niðurstaða dugaði Olazabal eingöngu í þriðja sæti því Frakkinn Thomas Levet sem síðar varð atvinnumaður, vann meðal annars mót á Evrópumótaröðinni, spilaði árið 2002 í bráðabana um sigur á Opna mótinu í Muirfield og var í sigurliði Evrópu á Ryder Cup árið 2004, hreppti annað sætið einum metra á eftir okkar manni.

Magnaður árangur!