Það var gríðarleg spenna í báðum meistaraflokkunum alveg fram á loka holuna. Skorin í tveimur síðustu hollum meistaraflokkanna voru uppfærð holu fyrir holu og skapaðist við það mikil stemning á svölum íþróttamiðstöðvarinnar.
Í meistaraflokki kvenna var allt í járnum fyrir lokahringinn. Árný Eik Dagsdóttir var í fyrsta sæti á 243 höggum , Eva María Gestsdóttir var í öðru sæti, höggi á eftir henni og Ingunn Einarsdóttir var í því þriðja tveimur höggum á eftir Árný. Þær Eva og Árný skiptust á forystusætinu nokkrum sinnum á hringnum og Ingunn var aldrei langt undan. Eftir 17. holuna var Árný Eik höggi á undan Evu. Þær fengu báðar skolla á þeirri 18 og náði Árný þannig sínum fyrsta klúbbmeistaratitli. Frábær spilamennska hjá þessum ungu og efnilegu kylfingum en Árný er 16 ára og hún Eva er 14 ára.
Ingunn Einarsdóttir og María Björk Pálsdóttir voru jafnar í þriðja til fjórða sæti, fóru þær því í bráðabana um þriðja sætið. Þær sýndu báðar mikla keppnishörku í bráðabananum „sulluðu“ niður löngum púttum til að jafna fyrstu og aðra holuna. Ingunn vann svo þriðju holuna og endaði því í þriðja sætinu.
Það var jafnframt mikil dramatík í meistaraflokki karla. Jón Gunnarsson var með tveggja högga forskot á þá Sigmund Einar Másson og Egil Ragnar Gunnarsson. Alfreð Brynjar Kristinsson átti þrjú högg í efsta sætið og hann Ingvar Andra Magnússon vantaði fjögur högg. Jón spilaði frábært golf allt mótið og var einu höggi undir parinu eftir 17. holu. Alfreð Brynjar Kristinsson hafði jafnframt átt stórgóðan hring, spilaði á 68 höggum eða þremur undir pari. Par á þeirri 18. hefði því dugað Jóni til sigurs. Jón var mjög óheppinn með legu eftir upphafshöggið, boltinn var í snarrót í röffinu vinstra megin. Jón Fékk „flyer“ og kylfuhausinn lokaðist örlítið. Boltinn sveif vel yfir flötina lenti utan vallar á malbikinu og endaði við flatarkantinn á níundu á Mýrinni. Jón þurfti því að endurtaka höggið sem endaði á miðri flöt sem hann tvípúttaði. Gamla brýnið hann Alfreð náði því að lenda sínum fimmta klúbbmeistaratitli. Hefur enginn kylfingur hampað titlinum jafn oft og Alfreð.
Egill Ragnar Gunnarsson spilaði lokahringinn á parinu og því voru þeir Jón jafnir í öðru til þriðja sæti. Egill Ragnar fékk fugl á fyrstu holu bráðabanans og var því í öðru sæti og Jón í því þriðja.