Núna rétt í þessu lauk golfmótinu Bylgjan Open 2008 hér á Vífilsstaðavelli. Mótið var stórskemmtilegt, en mótið var tveggja daga punktakeppni með niðurskurði eftir fyrri daginn. Veðrið stríddi kylfingum töluvert fyrri daginn en þann seinni sýndu veðurguðirnir á sér betri hliðarnar fram eftir degi. Mótið var allt hið veglegasta, en veitt voru glæsileg verðlaun fyrir fyrstu fimm sætin, nándarverðlaun á öllum par 3 holum auk verðlauna fyrir lengsta upphafshögg á 12. braut. Þá voru ógrynnin öll af vinningum sem gengu út í skorkortaútdrætti.
Leikar fóru þannig að Berglind Hafliðadóttir hafði sigur með 71 punkt, 35 punkta fyrri daginn og 36 punkta seinni daginn. Fékk hún val um vinninga og valdi sér að fá ferð fyrir einn til Sotogrande í Portúgal í haust á vegum Sumarferða. Annar varð Einir Logi Eiðsson. Þá datt Örn Arnarsson í lukkupottinn þegar hann hlaut sömu ferð og Berglind í verðlaun með skorkortaúdrætti. Listi yfir verðlaunahafa er hægt að sjá með því að smella á „Lesa meira“ hér að neðan.
Bylgjan og GKG þakka kærlega fyrir sig og hlakka til að sjá kylfinga aftur að ári.