Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur GKG, datt aldeilis í hörkustuð í dag. Kappinn lék á 65 höggum, heilum sjö höggum undir pari vallar og er eftir þriðja dag í efsta sæti 2. stigs úrtökumótsins fyrir evrópsku mótaröðina, á samtals 11 höggum undir pari. Birgir er með eins höggs forystu á næsta mann, Englendinginn David Dixon.
Birgir er kominn langleiðina með að tryggja sig inn á 3. stig úrtökumótsins, en þar þarf hann að ná svipuðum árangri ætli hann sér að endurnýja kortið sitt á evrópsku mótaröðinni fyrir árið 2008. Nú þarf Birgir bara að halda haus, setja inn góðan hring á morgun og þá er verkið hálfnað. Til að komast áfram þarf Birgir að enda í einu af 19 efstu sætunum á þessu móti svo horfur eru mjög góðar. Áfram Biggi!