Birgir Leifur hóf leik á 10. teig og lék holur 10. – 18 á 1 höggi undir pari með því að fá örn (-2) á 18 holuna, en hann fékk skolla á þeirri 11. Seinni 9 holurnar þ.e. 1. – 9. lék hann á pari með tveimur skollum og tveimur fuglum. Hann lék því í dag samtals á 1 höggi undir pari og er því á parinu eftir fyrstu 2 keppnisdagana.
Skv stöðunni eins og hún nú er ætti niðurskurðurinn að vera parið og Birgir Leifur því áfram í keppni á morgun. Þetta ætti þó að skýrast á næstu mínútum.
Birgir Leifur sagðist í samtali við GKG.IS að aðstæður hefðu verið ákaflega erfiðar, mikill vindur "Þetta var sannkallað Leirulogn" sagði Birgir Leifur. "Ég spilaði mjög vel en hefði mátt vera heppnari með púttin. Ég var að missa nokkur stutt pútt sem gaman hefði verið að sjá detta. Annars var ég virkilega sáttur við daginn. Þetta var mikil barátta. Ég fékk fugl á síðustu holunni og mér sýnist niðurskurðurinn ætla að vera parið. Menn eru að skila inn mun verra skori í dag þannig að ég vona að þetta dugi til" sagði Birgir Leifur að lokum.
Hann er nú sem stendur í 46.- 61. sæti og nær öruggur í gegn um niðurskurðinn.