Fyrir þetta mót er Birgir Leifur í 87. sæti á styrkleikalistanum sem skilar honum í keppnisflokk 10 sem er sá keppnisflokkur sem hann byrjaði í í vor og hefur því ekki náð að bæta stöðu sína frá síðasta ári. Með því að ná 80. sæti eða neðar myndi hann tryggja sér enn frekari þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni á næsta ári og myndi þá flokkast í 6. keppnisflokk, en þar eru þeir kylfingar sem enda í 21. – 80. sæti árinu áður.

Fari svo að Birgir Leifur nái ekki að bæta stöðu sína á þessu ári inni á Áskorendamótaröðinni, hefur hann möguleika á að bæta flokkun sína með góðri spilamensku á 2. stigi úrtökumóts Evrópumótaraðarinnar sem fer fram dagana 1. – 4. nóvember. Með árangri sínum á Áskorendamótaröðinni í sumar hefur Birgir Leifur áunnið sér rétt til að sleppa 1. stigi úrtökumótanna og getur farið beint inn á 2. stigið. Nái hann hinsvegar að bæta stöðu sína enn frekar með spilamennsku sinni og komast í 45. sæti eða neðar á styrkleikalista Áskorendamótaraðarinnar áður en tímabilinu lýkur kemst hann beint inn á lokastigið sem fer fram 9. – 14. nóvember á Spáni. Af þessu sést að möguleikarnir eru margir en að sama skapi margir kylfingar í sömu sporum og Birgir Leifur.

Við óskum Birgi góðs gengis á mótinu um helgina og vonum að hann nái að bæta stöðu sína.