Birgir Leifur var rétt í þessu að ljúka leik á South African Airways Open mótinu sem fram fer í Port Elisabeth í Suður-Afríku. Mótið sem er annað mótið sem Birgir Leifur tekur þátt í á Evrópumótaröðinni er jafnframt annað elsta opna mót sem haldið er í heiminum en það var fyrst haldið árið 1893 og þá í Port Elisabeth. Einungis Opna breska er eldra en það var fyrst haldið árið 1860.

Birgir Leifur byrjaði gríðarlega vel í dag. Hann fékk 4 fugla, 2 pör og 2 skolla á fyrstu 8 holunum en hann hóf leik á 10. teig. Síðan fékk hann skramba á 9 holunni. Á seinni 9 holunum fékk hann síðan 7 pör og 2 skolla og endaði á +2 höggum yfir pari. Birgir Leifur er núna í 40. sæti þegar um helmingur keppenda hefur hafið leik.

Á morgun byrjar Birgir leifur á 1. teig og mun hefja leik klukkan 11:30 á staðartíma sem er klukkan 9:30 að íslenskum tíma. Sjónvarpsstöðin Sýn mun sýna beint frá mótinu og hefjast útsendingar klukkan 12:10 í dag og föstudag.