Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur GKG, var í fantaformi um helgina á BA-CA mótinu í Austurríki. Hann spilaði síðustu tvo hringina á 68 og 67 höggum og endaði í 21. – 27. sæti, hans annar besti árangur á Evrópsku mótaröðinni. Þetta var 10. mótið hans á túrnum og hefur hann komist í gegnum niðurskurðinn í 8 mótum. Besti árangur hans var á Opna ítalska mótinu, en eins og frægt er orðið þá endaði hann þar í 11. sæti.
Hann hlaut 14.105 evrur í verðlaunafé fyrir árangurinn um helgina, eða um það bil 1,2 milljónir íslenskra króna og dugir það eflaust vel til að þoka honum upp peningalista mótaraðarinnar.