Til hamingju Birgir Leifur !!! Kominn á Evróputúrinn
Birgir Leifur náði að tryggja sér fullan þátttökurétt á sterkustu mótaröð Evrópu rétt í þessu þegar hann lék lokahringinn á -3 höggum undir pari í dag. Þar með náði hann að enda á -1höggi undir pari í heildina og er þar með búinn að tryggja sér þátttökurétt á Evrópumótaröðinni á næsta ári með möguleika á þátttöku í allt að 20 mótum á þessarri sterku mótaröð þar sem margir af stekustu kylfingar heimsins etja kappi saman.
Gríðarleg spenna hefur verið í dag þar sem Birgir byrjaði fyrri 9 holurnar brösuglega með því að fá fyrsta og eina skrambann sem hann fékk alla 6 hringina. Birgir Leifur er sem stendur í 26. – 28. sæti en þó nokkuð af kylfingum eiga eftir að ljúka leik sem eru fyrir ofan Birgi Leif á stigatöflunni og hafa því ekki áhrif á stöðu hans. Örfáir eru eftir fyrir neðan hann og ekki fræðilegur möguleiki að hann geti fallið niður fyrir 30. sætið úr þessu. Eins og staðan er núna lítur út fyrir að það verði 36 kylfingar sem fá keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á næsta ári.
Fresta varð leik í dag vegna rigningar þegar Birgir Leifur átti 2 holur eftir og hefur spennan væntanlega verið mögnuð á vallarsvæðinu á San Roque á meðan.
Birgir Leifur lék hringina 6 á 69-72-75-71-75-69 = 431.