Birgir Leifur Hafþórsson stóð sig vel á Opna Saint Omer mótinu í Frakklandi í um helgina, en mótið er hlut af evrópsku mótaröðinni. Birgir endaði í 26. – 33. sæti og fékk í sinn hlut 4.600 evrur, eða rétt tæpar 400 þúsund íslenskar krónur. Þessi árangur þokar Birgi áfram upp peningalistann, en hann var í 155. sæti fyrir mótið.

 

Greinilegt er að völlurinn og aðstæður hafa verið kylfingum erfiðar og er skorið á mótinu frekar hátt, til að mynda lauk Birgir leik á 4 höggum yfir pari, spilaði hringina á 70, 74, 72 og 72 höggum. Lokahringurinn var litríkur hjá Birgi, en hann fékk fimm skolla og fjóra fugla. Gaman er að skoða einn sex holu kafla hjá honum þar sem hann fær fyrst þrjá skolla í röð, en kemur svo strax til baka með þremur fuglum. Frábært hjá Birgi og greinilegt að hann á heima á evrópska túrnum.

 

Birgir Leifur hefur nú tekið þátt í 11 mótum á túrnum og komist í gegnum niðurskurðinn á 8 þeirra. Heildarverðlaunafé hans hingað til er 69,821 evra eða rétt tæpar sex milljónir. Þess má til gamans geta að Birgir hefur rúmlega fjórfaldað tekjur sínar af golfi frá því í fyrra, en heildarvinningsfé hans á áskorendamótaröðinin í fyrra voru rétt rúmar 15,000 evrur. Flottur árangur hingað til hjá Birgi