Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur GKG, átti erfiðan dag í dag þegar hann lék fyrsta hringinn í Joburg Open mótinu í Suður-Afríku en það mót er fyrsta mótið á evrópsku mótaröðinni í ár. Birgir Leifur kom í hús á 75 höggum, eða fjórum höggum yfir pari vallar. Birgir fékk sex skolla, tvo fugla og tíu pör á hringnum. Birgir er þegar þetta er skrifað jafn nokkrum kylfingum í 134. sæti mótsins, 64 sætum frá því að komast í gegnum niðurskurðinn.
Greinilegt er að Birgir fann ekki fjölina sína í dag og er spurning hvort axlarmeiðsli sem hann hefur verið að glíma við í vikunni hafi haft einhver áhrif á okkar mann. Það er þó vonanandi ekki raunin og aldrei að vita nema að Birgir komi með dúndurhring á morgun og nái í gegnum niðurskurðinn. Aldrei að segja aldrei!