Birgir Leifur Hafþórsson tryggði sér í dag sinn fyrsta sigur á atvinnumannamóti þegar hann spilaði fjórða og síðasta hringinn á 2. stigi úrtökumótsins fyrir evrópsku mótaröðina á 69 höggum, þremur undir pari vallar. Birgir, sem komst í forystu í gær með frábærum hring (65 högg) var svellkaldur í dag og stóð uppi sem öruggur sigurvegari á samtals 14 höggum undir pari, fjórum höggum á undan næsta manni.
Þetta er hreint út sagt frábær árangur hjá Birgi og greinilegt að hann er að rífa sig upp eftir að hafa átt í erfiðleikum síðsumars og í haust. Þetta sýnir hvað hann Birgir okkar er fær um og haldi hann þessari spilamennsku áfram þá er þess ekki langt að bíða að hann berjist um toppsætin á evrópsku mótaröðinni.
Fyrst verður hann þó að tryggja sér leikrétt þar aftur, en nú aðeins eitt ljón í veginum – þriðja og síðasta stig úrtöku mótsins sem hefst í næstu viku. Mótið er maraþonmót, sex hringir leiknir og niðurskurður eftir fjóra. 160 kylfingar berjast um 30 sæti og baráttan því mjög hörð. Nú er um að gera að senda Birgi baráttukveðjur og vona að hann nái eins góðum árangri þar og um helgina.