Birgir Leifur Hafþórsson er kominn með þátttökurétt á TCL Classic mótið sem fram fer á Yalong Bay Golf Club í Sanya á Hainan eyju í Kína helgina 15. – 18. mars. Yalong Bay völlurinn er PAR 72 og er 6.540 metra langur og ætti því að henta okkar manni vel til leiks.
Margir góðir kylfingar eru skráðir til leiks og má þar nefna; Lee Westwood, Paul McGinley, Johan Edfors, Ian Woosnam, Nick Dogherty og Jeev Mikha Singh. Sigurvegarar mótsins síðustu ár hafa verið Johan Edfors 2006 og Paul Casey 2005 en þetta er í þriðja sinn sem mótið er haldið.
Mótið hefst fimmtudagijnn 15. mars og stendur fram á sunnudaginn 18. mars. Birgir Leifur var nálægt því að komast inn á Clariden Leu Singapore Masters mótið sem fram fer um næstu helgi. Einungis 18 sæti skildu hann frá niðurskurðarlíununni að þessu sinni. Birgir sagði í stuttu samtali við GKG.is áðan að hann myndi fara að vinna í undirbúningi fyrir mótið í Kína strax í næstu viku og hann væri spenntur fyrir því. Framan af leit út fyrir að hann kæmist ekki á mót fyrr en á Madeira Island Open BPI sem er fyrsta mótið sem fram fer í Evrópu á mótaröðinni á þessu ári. Það mót hefst helgina á eftir mótinu í Kína. Það er því ánægjulegt fyrir Birgi Leif að hafa komist inn á mótið.