Það er með miklum söknuði sem við kveðjum Conny Hansen, en hún var um árabil félagi í GKG.
Conny tók mikinn þátt í öllu félagsstarfi á vegum klúbbsins og lét þar talsvert til sín taka. Hún var mikill brautriðjandi í kvennastarfinu og var um árabil formaður kvennanefndar og sat í stjórn GKG sem varamaður. Þar beitti hún sér fyrir ýmsum nýungum í starfseminni, en hún var mikil kvenréttindakona og fannst tímabært að staða kvenna yrði metin að verðleikum. Conny taldi nauðsynlegt að konur fengju sérstakan spilatíma og kom á föstum tímum fyrir konur seinnipartinn á þriðjudögum og sú skipan helst enn hjá GKG. Þá eru ýmsar hefðir hjá GKG sem Conny er upphafsmaður að, svo sem hinar árlegu óvissuferðir kvenna, en þá var farið á hina ýmsu golfvelli vítt um land, hatta-og kjólamót GKG sem haldið er árlega og síðast en ekki síst beitti hún sér fyrir hinum vinsælu rauðvínskvöldum, sem haldin voru í upphafi golftímabilsins til að hrista konur saman.
Conny vann sinn flokk í meistaramóti GKG tvisvar sinnum:
- 2011 2. sæti Öld.flokkur kvenna 50-64 ára
- 2012 3. sæti Öld.flokkur kvenna 50-64 ára
- 2013 1. sæti Öld.flokkur kvenna 65 ára og eldri
- 2014 1. sæti Öld.flokkur kvenna 65 ára og eldri
Þá var Conny afhent gullmerki GKG fyrir vel unnin störf í þágu klúbbsins þann 26. nóvember 2005.
Já, það er margs að minnast frá samskiptum okkar á golfvellinum. Það var gaman að spila með þeim hjónum Baldri og Conny. Alltaf létt og skemmtilegt andrúmsloft en golfið tekið föstum tökum með hæfilegum keppnisanda.Það var svolítið sérstakt hjá þeim hjónum, að Baldur var alltaf á sínum golfbíl en Conny vildi helst labba. Oft kom það fyrir að kappið í Baldri var svo mikið, að hann gleymdi því að Conny þurfti eðlilega að skipta um kylfu milli högga, og rauk af stað eftir sínum bolta. Hún var svo sem ekkert að æsa sig yfir þessu háttarlagi Baldurs, en sagði gjarnan, „hvað er nú að kallinum“, og Baldur svaraði gjarnan, varstu að segja eitthvað Conny litla?Þau voru bæði ágætir kylfingar og höfðu mikla ánægju af að spila golf. Baldur kom oft með smörribröd og sagðist hafa útbúið það fyrir golfhringinn en okkur er ekki grunlaust um að þar hafi smurbrauðsjómfrún, Conny Hansen, lagt sitt af mörkum því þetta var þvílíkt lostlæti og handbragðið eftir því. Það er mikill sjónarsviptir af Conny Hansen og við félagar hennar hjá GKG sendum Baldri og allri fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Agnar Már Jónsson
Guðmundur Oddsson