Miklar breytingar eru áformaðar af hálfu Garðabæjar á landssvæði GKG í nýju aðalskipulagi. Garðabær í samstarfi við Arkitektafélag Íslands efndi til framkvæmdasamkeppni um rammaskipulag Vífilsstaðalands sem tók til íbúðabyggðar, íþróttasvæðis, golfvallar, verslunar og þjónustu. Niðurstöður samkeppninnar voru kynntar 21. desember á síðasta ári. Sá þáttur tillögunnar sem sneri að golfþættinum lögðust vægast sagt illa í félagsmenn GKG.
Þann 1. febrúar síðastliðinn var haldinn félagsfundur hjá GKG og var það niðurstaða fundarins að kalla saman starfshóp sem í voru skipaðir aðilar úr GKG og Garðabæ auk golfvallaarkitektsins Snorra Vilhjálmssonar. Markmið starfshópsins var að hanna framtíðarlausn fyrir GKG sem allir hagsmunaraðilar gætu verið stoltir af.
Starfshópurinn skilaði af sér tillögu sem kynnt var á félagsfundi GKG í gærkvöldi sem um 250 félagsmenn mættu á.
Garðabær stefnir að því að hefja framkvæmdir á nýju fjölnota íþróttahúsi í september á þessu ári. Húsið verður staðsett þar sem núverandi höggsvæði félagsins er. Í stað þess að byggja bráðabirgða höggsvæði, sem kostar umtalsvert fjármagn, þá verður sett upp net á núverandi æfingasvæði og Trackman golfhermar settir í hvern bás. Slegið verður í netið og geta kylfingar séð höggið ásamt öllum ferilbreytum á standi sem staðsettur verður við hlið bássins. Til að rýma fyrir góðum barna- og byrjendavelli ásamt glæsilegu stutta-spils æfingasæði verður byggt við núverandi íþróttamiðstöð GKG 600 til 700fm og verður framtíðar höggsvæði GKG innandyra og nýtist þannig meirihluti fjárfestingar í bráðabirgðahöggsvæðinu með þeim hætti. Auk þess gefur þessi leið félagsmönnum allt aðra og nýja nálgun á að æfa golfíþróttina allt árið um kring.
Þá er stefnt að því að byggja nýjan 9 holu golfvöll í stað Mýrarinnar. Verður hann staðsettur á glæsilegu vallarstæði sunnan við Íþróttamiðstöðina á Skyggnisholti. Leikið verður á Mýrinni þar til nýr völlur verður tilbúinn þannig að félagsmenn verða lítið varir við framkvæmdarask. Nýi völlurinn mun liggja meðfram Vífilsstaðavatni og fer þaðan inn í skógræktarsvæðið upp að Leirdalsmynni. Það verða skemmtilegar andstæður í vellinum, annars vegar verður glæsilegt útsýni yfir Vífilsstaðavatnið, eftir fjórðu braut verður svo spilað í skóglendi. Fimmta brautin er par 4 hola með hundslöpp til hægri. Sjöunda brautin verður hin glæsilegasta, eftir teighögg þá er slegið inn á flötina sem liggur um 20 metrum neðar. Þá er spiluð par 5 braut út úr skóginum og níunda brautin liggur upp við Íþróttamiðstöðina.
Almenn ánægja var með þessa framtíðarsýn og samþykkti fundurinn samhljóða ályktun þess efnis að stjórn GKG hafi fullt umboð félagsmanna til að ganga til samninga við Garðabæ um framangreindar breytingar. Á því leikur enginn vafi að þegar upp er staðið verður aðstaða GKG til æfinga og leiks mun betri en áður.
(Á myndinni hér að neðan má sjá væntanlegt vallarsvæði á nýjum 9 holu velli GKG, mynd: Þráinn Hauksson, Landslag)