Ágæti GKG-ingur
Eins og farið var yfir á síðasta aðalfundi GKG, þá er verið að endurskoða aðalskipulag Garðabæjar. Búast má við töluverðum breytingum á aðstöðu GKG. Garðabær sækist eftir landi þar sem núverandi æfingasvæði GKG er auk hluta af Mýrinni. Á móti fengi GKG land sunnan við Íþróttamiðstöðina sem teygir sig niður að Vífilsstaðavatni. Stjórn GKG tók þá afstöðu að væri það eindregin ósk Garðabæjar að fá hluta af athafnasvæði GKG til annarra nota, þá væri félagið reiðubúið að ganga til samstarfs um það. Samstarfið hlýtur þó að vera háð þeirri grundvallarforsendu að breyting feli ekki í sér að verr verði búið að GKG en nú er eða framtíðarmöguleikar skerðist.
Eðli málsins samkvæmt hefur GKG rætt ítrekað og ítarlega um fyrirhugaðar breytingar við aðila innan bæjarkerfisins. Garðabær ákvað að efna til opinnar samkeppni um rammaskipulag fyrir allt Vífilsstaðalandið, þar með talið svæði GKG. Samkeppnin hefst innan skamms. Fulltrúar GKG hittu dómnefnd samkeppninnar snemmsumars og kynntu sjónarmið félagsins fyrir henni. Í framhaldinu var tekin saman greinargerð og hún send dómnefndinni og skipulagsstjóra Garðabæjar.
Stjórn GKG telur mikilvægt að GKG-ingar fái að fylgjast grannt með þessu máli. Í hlekkjunum hér að neðan má finna framangreinda greinargerð auk auglýsingar Garðabæjar um aðalskipulagið og athugasemdir GKG við það.
- Greinargerð GKG um væntingar og sýn GKG á þá möguleika sem falist geta í þróun Vífilsstaðalands fyrir starfsemi félagsins
- Auglýsing Garðabæjar um aðalskipulag 2016 – 2030
- Athugasemdir GKG við tillögu að nýju aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 frá 27. apríl 2017
Ég vil fullvissa þig um að stjórn GKG mun fylgja þessu máli eftir af fullum þunga með það að leiðarljósi að verja hagsmuni félagsmanna og tryggja þannig bjarta framtíð GKG.
Ég vona að þessir fallegu ágústdagar verði þér hvatning til að stunda golfið af krafti fram á haust.
Finnur Sveinbjörnsson, formaður GKG