Hvað segir GKG-ingurinn Toggi Björnsson?
Við höfum flest fengið tiltal frá þessum gæa úti á velli sem við héldum í fyrstu að væru skammir en áttuðum okkur svo á að var bara gagnleg fræðsla frá einum af mestu ljúflingum GKG! Við erum að tala um hinn 56 ára gamla Togga sem býr í Reykjavík, er með 17,8 í forgjöf og er einn af flottu dómurum klúbbsins. Uppáhalds nestið sitt finnur þessi snillingur hjá Tomma og Jönu í Mulligan og hann skorar mjög hátt í vandræðakeppni GKG-inga eða hefur einhverjum öðrum tekist að slá bolta í hnakkann á vini sínum sem stendur aftan við þann sem slær? ? Gefum alþjóðadómaranum, rokkaranum og skemmtilega dugnaðarforkinum Togga orðið.
Hvað dró þig að golfinu og hvenær?
Ég var að vinna í Nýherja og 2002 bauð framkvæmdastjórinn okkur í golf á Oddi. Ég fékk kennslu á fyrsta teig og svo var ætt af stað. Man ennþá skorið, 168 högg. Ég var upptekinn næst 2 sumur svo ég byrjaði ekki af alvöru fyrr en 2004. Mín mistök var að fara ekki til kennara strax. Er ennþá að súpa seiðið af því.
Hvers vegna valdirðu GKG?
Ég byrjaði í Keili, þrátt fyrir að búa á Vífilsstöðum. GKG var ekki byrjendavænn völlur árið 2004. Svo var það þannig að ég spilaði fleiri hringi á GKG en GK árið 2007 svo ég skipti yfir 2008. Ég þekkti líka svo marga í GKG.
Hvort er Mýrin eða Leirdalur þinn völlur?
Leirdalur allan daginn.
Hvernig leist þér á vellina okkar þetta sumarið og hvernig leggjast breytingarnar á 10. og 16. á Leirdalnum í þig?
Mér finnst GKG alltaf frábær. Mér finnst þessar breytingar hafa heppnast mjög vel, sérstaklega á 16 braut. Núna reynir maður við holtið.
Hvernig var golfsumarið þitt?
Frekar lélegt í fjölda hringja. Fór í framkvæmdir heima og utanlandsferð sem hafði áhrif á golfiðkun. Tek þetta bara út í hermunum í vetur.
Tókstu þátt í meistaramótinu þetta sumarið og ef svo, hvernig var upplifunin?
Ég hef aldrei sleppt meistaramóti. Það var í styttra lagi þetta sumarið út að utanlandsferðinni. Meistaramót er veisla sem ég vil alls ekki missa af.
Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?
Úff þesssi er erfið. Beggi væri pottþétt í hollinu svo kannski Úlfar og Jón sonur minn sem er í GM.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?
Draumahringurinn. Hafði verið með 3 takmörk sem komu öll í einum hring. Man ennþá eftir fuglinum á 17. Upp úr bönker, í miðja stöng og í holu með látum. Svo var golfferðin til Vall del este um páskana með frúnni æðisleg.

Toggi ásamt fleiri öflugum dómurum í GKG. Jón K, Kjartan Bjarna, Sæmundur, Heimir, Helgi Már og Bergsveinn
En það vandræðalegasta?
Þegar ég sló bolta í hnakkann á Baldri vini mínum sem stóð eiginlega fyrir aftan mig. Skil ekki ennþá hvernig ég fór að þessu.
Hvert er uppáhalds leikformið þitt?
Holukeppni.
Hver eru bestu og verstu golfkaupin sem þú hefur gert í gegnum golftíðina?
Uss þau eru svo mörg.
Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?
Fjórtánda. Bíður upp á fugl og örn en getur líka refsað.
Uppáhalds holan þín á Mýrinni?
Þriðja. Hef tekið flesta fuglana þar á mýrinni.
Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?
Hella og Hveragerði.
Notar þú golfhermana og ef, hver er upplifunin?
Já yfirleitt frekar mikið. Þetta er gaman en getur verið leiðingjarnt ef maður gerir of mikið af því.
Hver er uppáhaldskylfan og í hvaða aðstæðum notarðu hana helst?
Einu sinni var það 60 gráðurnar. Erfitt að slá með henni en geggjað þegar það tekst. Núna er það engin sérstök.
Áttu þér fyrirmynd í golfinu?
Nei eiginlega ekki.
Uppáhaldsnestið í golfpokanum?
Bara eitthvað gott brauð frá Tomma og Jönu.
Hvað er lang, lang best við GKG?
Félagsandinn. Hann er einstakur. Sjálfboðaliðar klúbbsins eru líka einstakir. Held að GKG beri af öðrum klúbbum í vilja fólks að taka þetta að sér. Við höfum verið mjög heppin með mótastjóra undanfarin ár og það hefur mikið að segja. Svo má ekki gleyma hinni óþreytandi, ósérhlífnu og yndislegu Ingibjörgu Þ Ólafsdóttur. Það er allt betra eftir að hún kom i klúbbinn.