Klúbbmeistarar GKG 2020

Meistaramótið í ár var það fjölmennasta frá upphafi, það voru 404 keppendur sem mættu til leiks og keppt var í 22 flokkum. Óhætt er að segja að stemningin hafi verið með eindæmum góð alla sjö keppnisdagana, veðrið lék við okkur og andinn var einstakur.

Mikil spenna var í meistaraflokk karla fyrir lokadaginn. Hlynur Bergsson var í forystu á fimm höggum undir pari. Þeir Ólafur Björn Loftsson og Aron Snær Júlíusson fylgja fast á hæla Hlyns, jafnir í öðru sæti, á fjórum höggum undir pari. Hlynur gaf ekkert eftir á lokahringnum spilaði hann á fjórum höggum undir pari og því Klúbbmeistari karla í GKG árið 2020 á samtals níu höggum undir pari. Ólafur Björn Loftsson spilaði hringinn á tveimur höggum undir pari og endaði í örðu sæti á sex höggum undir pari og Aron snær lék á höggi undir pari og endaði í þriðja sæti á fimm höggum undir pari.

Í kvennaflokki var Hulda Clara Gestsdóttir með nokkuð afgerandi forystu fyrir lokadaginn eða 8 högg, keppnin var hins vegar hörð um annað sætið. Ingunn Gunnarsdóttir var tveimur höggum á undan nöfnu sinni Einarsdóttur og fast á hæla þeirra komu þær Árný Eik, María Björk og Anna Júlía. Hulda Clara landaði svo klúbbmeistaratitli kvenna GKG 2020 með því að spila lokahringinn á þremur höggum yfir pari, endaði á 300 höggum. Ingunn Gunnarsdóttir gaf annað sætið ekki eftir á lokahringnum sem hún spilaði á einu höggi yfir pari og Ingunn Einarsdóttir endaði í þriðja sæti.

Þökkum við öllum keppendum fyrir frábært mót!

Efstu þrjú sætin í hverjum flokki má sjá með því að smell hér.