Kvennasveit GKG hóf leik í gær á EM klúbbliða en mótið fer fram á Balaton vellinum í Ungverjalandi 3.-5. október.

Sterkustu golfklúbbar Evrópu taka þátt en þátttökurétt fengu þeir klúbbar sem sigruðu á landsmótum klúbbliða í sínu landi. Kvennasveit GKG sigraði einmitt á Íslandsmóti golfklúbba fyrr í sumar, í annað sinn.

Fyrir hönd GKG keppa Árný Eik Dagsdóttir, Eva María Gestsdóttir og Hulda Clara Gestsdóttir. Þjálfari og fararstjóri er Arnar Már Ólafsson, afreksþjálfari GKG.

Hulda Clara átti flottan hring í gær og lék á besta skorinu, 74 höggum og leiðir því einstaklingskeppnina. Hún átti frábærar seinni níu þar sem hún fékk 4 fugla á 5 holum. Eva María og Árný Eik náðu sér ekki á strik og léku báðar á 92 höggum. Sveit GKG er í 11. sæti af 16 liðum eftir fyrsta hringinn, en þýski klúbburinn St. Leon Rot leiðir mótið.

Hægt er að fylgjast með stöðunni hér.

Seinna í þessum mánuði heldur síðan karlasveit GKG til Frakklands og tekur þátt í EM klúbbliða karla.

Við óskum stelpunum góðs gengis!
Áfram GKG!