Okkur er tíðrætt um hinn eina og sanna GKG anda sem er í raun sú stemning sem við félagsmennirnir sköpum okkar á milli. Með pistlunum „Hvað segir GKG-ingurinn“ langar okkur til að varpa frekari ljósi á alla þá litríku flóru einstaklinga sem sameignilega skapa GKG andann.

Við ríðum á vaðið með viðtali við hana Ólu Björk Eggertsdóttur, fimmtugan Kópavogsbúa sem er í dag með 24,4 í forgjöf.

Hvað dró þig að golfinu og hvenær? Ég á Hólmari manninum mínum það alfarið að þakka að ég byrjaði í golfi. Hann byrjaði að fikta við íþróttina vorið 2012 og fékk strax mikinn áhuga og vildi fá mig með sér. Í fyrstu var ég treg í taumi en gaf þó loks undan og fór ég minn fyrsta 18 holu golfhring í maí 2013. Fannst mér golfíþróttin frekar óspennand enda komin með hlaupabakteríu á háu stigi. En það átti heldur betur eftir að breytast því um páska 2016 fór ég til Valle Del Este á golfnámskeið og fékk þá bakteríuna. Nú sé ég mest eftir því að hafa ekki byrjað mikið, mikið fyrr  Golf er algörlega frábær íþrótt og sé ég fyrir mér að það verði yndislegt að eldast og hafa þá meiri tíma til að æfa og spila golf.

Hvers vegna valdirðu GKG? Það er stutt að fara á völlinn þar sem ég bý í Kópavogi.

Mýrin eða Leirdalur? Leirdalurinn finnst mér skemmtilegri.

Stóðu vellirnir undir væntingum þínum sólarsumarið 2019? Algjörlega. Ég spilaði þó bara 30 hringi á völlunum hér heima á þessu ári þar sem við hjónin stóðum í flutningum í sumar og höfðum í nógu að snúast.

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu? Drauma GKG hollið mitt samanstæði af einhverjum af þeim frábæru GKG konum sem ég hef kynnst á undanförnum árum. Tiger Woods yrði síðan að sjálfsögðu með.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum? Það var í sumar þegar ég byrjaði að nota nýja hybrid kylfu. Ég hitti þá mun oftar boltann á braut og sló lengri og beinni högg en áður. Þessu fylgdi mikið öryggi og ótrúleg ánægja. Þá fór líka forgjöfin að lækka.

En það vandræðalegasta ? Ég var í einhverju basli á fyrstu brautinni í Meistaramótinu 2017. Ég var búin að slá fleiri högg á brautinni en ég átti að venjast og tapaði svo loks boltanum út af brautinni.  Ég ákvað að vera ekkert að svekkja mig yfir þessari slöku byrjun og tilkynnti konunum í hollinu mínu að ég ætlaði bara að x-a holuna. Þær horfðu á mig í forundran og sögðu mér að í svona móti er skylda að klára að spila hverja einustu holu. Var mér mjög brugðið við tíðindin og skammaðist mín fyrir vankunnáttu mína. Fór ég að efast um að það hafi verið svo góð hugmynd að skrá mig í þetta mót en tilgangurinn hafði fyrst og fremst verið að læra hvernig svona mót fer fram. Mér veitti greinilega ekkert af slíkum skóla

Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt? Ég tók þátt í Meistaramótinu árið 2017 og þetta árið tók ég þátt í Ryderkeppninni. Bæði mótin fannst mér sérstaklega skemmtileg.

Texas Scramble eða Betri Bolta? Betri Bolti.

Uppáhalds holan þín á Leirdalnum? Hvers vegna? Uppáhaldsholan mín á Leirdalnum er hola tvö. Þar stendur teigurinn hátt með góðu útsýni yfir flötina. Mér finnst gaman að reyna að hitta inn á flötina í upphafshögginu og forðast að slá of langt og missa boltann í glompuna vinstra megin eða alla leið inn á flötina á sextándu braut á Leirdalnum.

Uppáhalds holan þín á Mýrinni? Hvers vegna? Á Mýrinni er 8. holan í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér finnst gaman að slá upphafshöggið og reyna svo að ná sem lengst í öðru höggi án þess þó að lenda í glompunni hægra megin við flötina. Vippið inn á flötina er líka krefandi og skemmtilegt.

Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG? Hér heima er það Grafarholtsvöllur. En svo eru margir skemmtilegir golfvellir á Spáni og Flórída.

Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin? Ég er nýlega farin að mæta í golfhermana og er að læra hvernig best er að bera sig að. Mér finnst óskaplega gaman að hafa þennan valkost að spila golf í hermi með góðum vinum þegar úti er myrkur og jafnvel leiðinda veður. Golfhermar eru klárlega málið yfir veturinn, að mínu mati. Svo er ekki leiðinlegt að geta valið að spila golfvelli á borð við St. Andrews og aðra fræga golfvelli.

Hver er uppáhaldskylfan? Nýja hybrid kylfan mín, XXIO X hybrid, er tvímælalaust í algjöru uppáhaldi. Ég fékk mér hana í sumar og virðist hún henta mér mjög vel.

Áttu þér fyrirmynd í golfinu? Reyndar á ég mér ekki neina fyrirmynd í golfi en ég nýt þess að fylgjast með stærstu golfmótunum í sjónvarpinu. Þá hef ég mjög gaman að mörgum golfurum eins og Jordan Spieth, Jon Rahm, Dustin Johnson, Rory Mcllroy, Ricky Fowler og Tiger Woods. Ég hef því miður ekki fylgst með kvennagolfinu úti í heimi en finnst frábært að sjá hvað okkar konur hafa náð langt.

Hvernig nestar þú þig út á golfvöll? Það er mjög misjafnt en ég reyni þó að halda mig við hollustuna. Mér gengur alltaf best í golfi ef ég er með gott nesti og hef gefið mér tíma til að undirbúa mig fyrir golfhringinn.

Hvað er lang, lang best við GKG? Fólkið í klúbbnum, ekki spurning. GKG-ingar eru bestir.