Ef þið hafið tekið þátt í GKG móti þá er sennilegt að hann hafi ræst ykkur út, ef þið hafið svo mætt í verðlaunaafhendinguna og fjörið eftir mótið þá er enn sennilegra að þar hafi hann setið spariklæddur við píanóið og leikið fyrir ykkur ljúfa tóna og ef þið rekist á góða ljósmynd af ykkur á síðum GKG þá eru góðar líkur á að þessi meistari hafi smellt henni af ykkur. GKG-ingur dagsins er hinn 74 ára gamli fjölhæfi Magnús Már eða Maggi ræsir eins og við köllum hann flest. Þessi ljúfi meistari bjó lengi í Kópavogi en nú í Reykjavík, er með 19 í forgjöf og er búinn að njóta sportsins í meira en hálfa öld. Takk fyrir okkur Maggi!
Hvað dró þig að golfinu og hvenær?
Ég byrjaði í golfi með því að fara á námskeið hjá Einari Guðnasyni og Kára rakara í janúar 1967. Námskeiðið var haldið í salnum undir stúkunni á Laugardalsvellinum. Það var móðurbróðir minn, Skúli Magnússon flugstjóri, sem kynnti mig fyrir golfinu.
Hvers vegna valdirðu GKG?
Það var auðveld ákvörðun. Ég hafði búið í Kópavogi frá 1952 og það lá beinast við að ganga í GKG, sem ég og gerði 1997.
Mýrin eða Leirdalur?
Báðir þessir vellir hafa sinn „sjarma“ ef svo má að orði komast. Stundum hentar betur að spila Mýrina.
Hvað stendur upp úr hjá þér eftir síðasta golfsumar?
Síðasta golfsumar verður skráð á spjöld sögunnar fyrir mikla traffík á völlum GKG frá morgni til kvölds, nánast sama hvernig viðraði. Þó gafst tækifæri á milli vakta til að spila golf.
Hvert er planið og leynivopnið fyrir golfsumarið framundan?
Planið er að spila vel, þakka fyrir góðu höggin og gleyma þeim lélegu eins fljótt og auðið er.
Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?
Einhverjir af fjórum afastrákunum mínum, allir í GKG. Utanfélagsmaðurinn sem fengi að vera með er frændi minn og vinur Sigurjón Sverrisson úr GK.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?
Það er svo margt skemmtilegt sem ég hef upplifað í golfinu. Þó er eitt sem stendur upp úr. Það er þegar sjálfur gullbjörninn, Jack Nicklaus, lék listir sínar á Nesvellinum í ágúst 1976. Ógleymanlegt að sjá þennann snilling.
En það vandræðalegasta?
Það gerðist líka á Nesvellinum. Ég hafði fengið lánaðan trópical hjálm (hatt) til að verjast kríunni, sem var ansi aðgangshörð eins og margir þekkja. Þegar ég er að ganga á fyrsta teig, kemur til mín afskaplega virðulegur og kurteis eldri maður, Þórhallur Ásgeirsson ráðuneytisstjóri og segir: „Ungi maður! Það er stranglega bannað samkvæmt dýraverndunarlögum að vera með harðan hatt á höfði í kríuvarpi“ Ég var fljótur að setja á mig prjónahúfuna.
Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt?
Ég hef ekki tekið þátt í mótum undanfarin ár vegna vinnu minnar hjá GKG. Stemningin í Meistaramótinu er alltaf einstaklega góð, ég upplifi hana líka mjög sterkt þegar ég er að ræsa út í mótinu.
Hvert er uppáhalds leikformið þitt?
Punktakeppni.
Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?
Það er 14. holan. Hef fengið nokkru sinnum fugl á henni.
Uppáhalds holan þín á Mýrinni?
Það er 5. holan. Lengsta drævið á síðustu árum.
Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?
Golfvöllurinn á Flúðum.
Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin?
Já, við ræsarnir spilum annan hvern fimmtudag yfir vetrarmánuðina. Upplifunin er einstök.
Hver er uppáhaldskylfan og í hvaða aðstæðum notarðu hana helst?
Járn nr. 4. Þegar ég er búinn að lemja í jörðina (stóra boltann) með brautartrénu nokkrum sinnum.
Áttu þér fyrirmynd í golfinu?
Nei, enga sérstaka.
Hvernig nestar þú þig út á golfvöll?
Leirdalur: Banani, samloka og vatnsflaska.
Mýrin: Vatnsflaska
Hvað er lang, lang best við GKG?
Einstök aðstaða til golfiðkunar allt árið. Hvað stemningin er góð og allir starfsmenn og sjálfboðaliðar á einu máli um að láta hlutina ganga upp.