„Svarið er í raun einfalt. Ég hef verið að vinna í að breyta sveiflunni undanfarin ár, og gert hana einfaldari, til þess að geta leikið betur undir pressu. Verið stöðugri og getað gengið að því vísu að höggin séu nánast alltaf eins. En það hefur hinsvegar komið fyrir hjá mér að ég fari að nota „gömlu“ sveifluna þegar líða fer á mótin, og það var það sem gerðist í Austurríki. Ég kenghúkkaði nokkur högg, í miklum sveig til vinstri strax í upphafi. Missti trúna á því sem ég var að gera og því fór sem fór. Ég var varla viðræðuhæfur á sunnudaginn eftir mótið og var gríðarlega ósáttur við sjálfan mig. Það þýðir hinsvegar ekkert að gefast upp. Ég notaði aðeins 24 pútt á þriðja keppnisdeginum þegar ég var að leika á 6 höggum undir pari og það er jákvætt.
Miðað við hvernig ég er að slá boltann frá teig og að flöt þá get ég ekki annað en verið sáttur við að eiga þó möguleika á að blanda mér í baráttuna eftir þrjá daga á mótinu í Austurríki. Þar var ég ekki að slá sérstaklega vel, það voru mörg slök högg sem ég átti á mótinu en púttin héldu mér á floti. Ég er því þokkalega bjartsýnn á að geta brotið ísinn á næstu vikum eða mánuðum. Þegar allt smellur saman þá eiga hlutirnir eftir að ganga upp,“ sagði Birgir Leifur.

Gríðarlegur hiti

Hann sagði að mótið í Austurríki hefði farið fram við hrikalega erfiðar aðstæður. „Við vorum að leika í 35 stiga hita og sól, völlurinn er hæðóttur og í fjallshlíð og þar sem það var svo heitt þá var okkur ekið á efstu punkta vallarins í golfbílum. Það er oft langt frá flöt og á næsta teig og ég held að það hafi verið 350 metra göngutúr upp í móti á 1. braut sem var nokkuð strembin ganga í hitanum. “