Úrval Útsýn mánudagsmótaröðin er punktamót fyrir félagsmenn GKG. Árið 2018 verður spilað í tveimur flokkum, karlaflokki og kvennaflokki, og stendur mótið yfir stóran hluta sumarsins.

Skráning fer fram með því að senda tölvupóst til gkg@gkg.is eða með því að hringja í rástímaskráningu GKG í s. 565 7373 og verða rástímar teknir frá á mánudögum. Stefnt er að því að bjóða jafnframt upp á skráningu á Facebook og verður það þá kynnt sérstaklega. Reynt verður að mæta óskum hvers og eins með rástíma hvenær sem er dagsins og verða endanlegir rástímar sendir keppendum með tölvupósti fyrir hvern mótsdag. Opnað verður fyrir skráningu viku fyrir hvern mótsdag og hafa þátttakendur forgang að rástímum fram að almennri opnun rástímaskráningar á golf.is.

Hver leikmaður getur leikið allt að 9 hringi en aðeins 3 bestu hringirnir telja.

Vegleg verðlaun verða veitt fyrir efstu þrjú sætin, bæði í karla- og kvennaflokki. Verðlaunaskrá 2018, í hvorum flokki, er:

  1. Utanlandsferð með Úrval Útsýn á El Plantio
  2. 70.000 kr. inneign hjá Úrval Útsýn í golfferð
  3. 30.000 kr. inneign hjá Úrval Útsýn í golfferð

Mótsgjald er 1.500 kr. fyrir hvert skipti og fá keppendur teiggjöf í hvert skipti upp á 1.000 kr. úttekt hjá Mulligan, veitingaraðila GKG. Að teknu tilliti til teiggjafarinnar er mótsgjaldið því aðeins 500 kr. í hvert skipti. Mótsgjaldið er greitt í Proshop þar sem leikmenn fá sérmerkt skorkort fyrir hvern hring.

Fyrsta umferð punktamóts GKG 2018 fer fram mánudaginn 28. maí og verður keppt alla mánudaga frá 4. júní og út júlí, nema 9. júlí vegna meistaramótsins, samtals 9 mánudaga í sumar. Síðasti keppnisdagur verður 30. júlí.

Mótsstjóri árið 2018 er Eggert Ólafsson.