Nú í sumar tökum við hjá GKG í notkun nýja byltingarkennda flatarsláttuvél, Jacobsen Eclipse 322. Gegna tvær nýjungar þar lykilhlutverki.

Vélin er með svokallaðri tvinntækni sem virkar með þeim hætti að lítil tveggja strokka dísil vél knýr rafal sem viðheldur rafgeimum. Vélin er að öllu öðru leyti rafmagnsknúin og eyðir hún þar af leiðandi átta sinum minna eldsneyti en hefðbundin flatarsláttuvél. Samræmist það vel umhverfismarkmiðum GKG.

Þá eru hefðbundnar flatarsláttuvélar með vökvadælur sem lyfta sláttuörmum. Þegar leiðslur byrja að leka spýtist olían á flatirnar og eyðileggur þær. Nýja vélin er ekki með neitt vökvakerfi, allir armar eru rafknúnir og þar af leiðandi er ekki hætta á því að vélin skemmi flatirnar eins og oft gerðist með gömlu gerðirnar.

Þá má að lokum nefna það að tölva stillir af arma vélarinnar og er því hægt að forrita mismunandi stillingar fyrir mismunandi aðstæður og flatir.

Á myndinni má sjá Guðmund Árna Gunnarsson, vallarstjóra GKG hjá nýju vélinni.

Sjá nánar á www.eclipse322.com