Meistaramót GKG var það 28. Í röðinni. Alls voru skráðir 464 keppendur í mótið í 26 flokkum og luku 442 keppni. Þetta er langfjölmennasta meistaramót GKG sem haldið hefur verið. Á mótinu í fyrra voru keppendur 404, þ.e. 60 færri en í ár. Hjá körlum voru 2. og 3. flokkar fjölmennastir, en hjá konum voru flestar  3. flokki.  Nokkru færri keppendur eru nú í meistaraflokkunum en voru í fyrra og stafar það því, að nú eru ýmis landsliðsverkefni í gangi, sem ekki voru á síðasta ári.

Alls voru 369 keppendur sem kepptu á Leirdalnum og 95 sem kepptu á Mýrinni. Undanfarin ár hafa 101 kona keppt á meistaramótunum, eða um 25%, en í ár kepptu 143 konur eða um 31% keppenda. Hér er því um verulega fjölgun að ræða frá fyrri árum. Karlar voru 321 skráðir til leiks eða 69%.

Anna Júlía Ólafsdóttir vann meistaraflokk kvenna nokkuð örugglega en hún spilaði hringina fjóra á 306 höggum og er því Klúbbmeistari kvenna 2021. Þær nöfnur Ingunn Einarsdóttir og Gunnarsdóttir börðust um annað sætið. Þegar upp var staðið hafnaði Ingunn Einarsdóttir í öðru sæti á 321 höggi en Ingunn Gunnarsdóttir hafnaði í þriðja sæti á 325 höggum sem verður að teljast frábær árangur þar sem hún er komin 6 mánuði á leið.

Meistaraflokkur kvenna Högg
  1  Anna Júlía Ólafsdóttir 306
  2  Ingunn Einarsdóttir 321
  3  Ingunn Gunnarsdóttir 325

 

Mikil spenna var í meistaraflokki karla. En þar börðust þeir Úlfar Jónsson, Sigmundur Einar Másson og Sigurður Arnar Garðarsson um klúbbmeistaratitil karla. Spennan var mikil á lokahringnum og skiptust þeir þremenningar á forystuhlutverkinu. Þeir Sigmundur og Sigurður enduðu jafnir á 18. holu á 293 höggum og þurfti því bráðabana til að skera úr um hvor þeirra hlyti klúbbmeistaratitilinn. Spiluðu þeir 18. holuna í bráðabananum og var staðan hjá Sigmundi góð, átti hann eftir um 8 metra pútt eftir annað högg á meðan Sigurður endaði í  glompu. Sigurður átti hins vegar frábært högg upp úr glompunni og setti púttið niður fyrir pari á meðan Simmi lék holuna á skolla. Siguður Arnar Garðarson er því klúbbmeistari karla 2021. Sigmundur í öðru sæti og Úlfar Jónsson í þriðja sæti, tveimur höggum á eftir þeim köppum.

Meistarflokkur karla Högg  
  1  Sigurður Arnar Garðarsson 293 EB
  2  Sigmundur Einar Másson 293  
  3  Úlfar Jónsson 295  

 

Önnur úrslit má sjá á þessum hlekk

Við hjá GKG óskum öllum verðlaunahöfum innilega til hamingju með árangurinn og þökkum jafnframt öllum þátttakendum og starfsmönnum mótsins fyrir þeirra störf, mótanefndinni, starfsfólki Mulligan, dómurum og öllum sjálfboðaliðum sem unnu ómetanlegt starf. Þá má ekki gleyma vallarstarfsmönnunum, en þeir sáu umslátt og hirðingu vallanna jafnt á nóttu sem degi