Bjarki Pétursson, afrekskylfingur GKG, tryggði sér fyrr í dag Íslandsmeistaratitil karla en mótið fór fram á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar dagana 6.-9. ágúst.

Bjarki er Borgnesingur en gekk til liðs við GKG í vor eftir að hafa verið þjálfaður af Arnari Má Ólafssyni, afreksþjálfara GKG, undanfarin sex ár. Þetta er fyrsti sigur Bjarka á Íslandsmótinu en mótið var haldið í 79. sinn í karlaflokki og 54. sinn í kvennaflokki.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili tryggði sér Íslandsmeistaratitil kvenna þriðja árið í röð eftir þriggja holu umspil við Ragnhildi Kristinsdóttur úr GR. Innilega til hamingju Guðrún Brá og Bjarki!

Samhliða mótinu var keppt um Íslandsmeistaratitil 35 ára og eldri og sigraði GKG-ingurinn Sigmundur Einar Másson nokkuð örugglega. Simmi varð Íslandsmeistari árið 2006, fyrstur GKG-inga, en einnig hafa Birgir Leifur Hafþórsson og nú Bjarki hampað titilinum. Í kvennaflokki 35 ára og eldri sigraði Nína Björk Geirsdóttir úr GM, innilega til hamingju Nína og Simmi!

GKG kylfingar skipuðu mörg af efstu sætunum í karlaflokki, en Aron Snær Júlíusson endaði jafn í öðru sæti, Egill Ragnar Gunnarsson og Hlynur Bergsson deildu 4. sætinu og Ólafur Björn Loftsson deildi 7. sætinu. Svo sannarlega frábær árangur hjá okkar afrekskylfingum! Okkar fremstu konur náðu ekki að sína sitt besta að þessu sinni en Anna Júlía Ólafsdóttir varð efst GKG kvenna í 11. sæti, sem er hennar besti árangur.

Aron Snær hafnaði í öðru sæti ásamt Rúnari Arnórs

Íslandsmeistarar 35 ára og eldri: Simmi og Nína 

5 af 9 efstu í karlaflokki eru GKG kylfingar

 

Hér má sjá lokastöðu Smelltu hér til að sjá skor allra í Íslandsmótinu.

Smelltu hér fyrir myndir frá Íslandsmótinu á gsimyndir.net