Annað mót í unglingamótaröð GSÍ fór fram á Hvaleyrarvelli, velli Golfklúbbsins Keilis, um helgina. Fjöldi unglinga spilaði þar undir merkjum GKG og stóðu sig með sóma. Einhverjir voru í baráttu um sigurinn í sínum flokki eftir fyrri hringinn en sá seinni var ekki eins góður hjá okkar fólki og fór því svo að aðeins einn unglingur úr GKG náði á verðlaunapall í þetta skiptið. Var það Eygló Myrra Óskarsdóttir sem hlaut silfurverðlaun í stúlknaflokki 16-18 ára. Hún spilaði hringina tvo á 153 höggum og varð aðeins 3 höggum frá fyrsta sætinu.
Næsta stigamót unglinga er jafnframt Íslandsmótið í holukeppni unglinga og fer fram á Þorlákshafnarvelli dagana 29. júní – 1. júlí.