Við í GKG erum endalaust stolt af barna- og unglingastarfinu í klúbbnum og öllum ungu, flottu kylfingunum okkar. Ein af þeim er hin 18 ára gamla Katrín Hörn sem býr í Reykjavík, er með 1,8 í forgjöf og er á mikilli siglingu í golfinu. Þessi glaðværi og félagslyndi kylfingur er til mikillar fyrirmyndar í starfinu og hlaut enda háttvísisbikar GKG 2022. Bikarinn er  veittur þeim unga kylfingi í GKG sem þykir hafa skarað fram úr á árinu hvað varðar árangur og framfarir, ástundun, metnað til að ná langt, félagsanda og ekki síst að vera fyrirmynd annarra félagsmanna, yngri sem eldri hvað varðar háttvísi innan vallar sem utan.

Katrín Hörn er mjög vel að Háttvísisbikarnum komin og hún notar veturinn vel til að búa sig undir golfsumarið framundan, er með plan, drauma og miklar væntingar! Þessi snillingur drævar inn á flöt á áttundu á Mýrinni eins og ekkert sé og svo á hún líka nokkrar skemmtilegar töfralausnir í pokahorninu, eina til að koma í veg fyrir að nestisstundin á vellinum tefji leik og ef þið sjáið hana oft ný upp dressaða þá er það vegna þess að þessi fjörkálfur spilar alltaf vel í nýjum fötum ? Gefum Katrínu Hörn orðið.

Hvað dró þig að golfinu og hvenær?
Sem krakki var ég á sumrin í sumarhúsi fjölskyldunnar rétt við Dalvík. Árni Jónsson frændi minn,  golfþjálfari og mikill golfari þjálfaði krakkana á Dalvík. Árið 2010, en þá var ég 6 ára, bauð hann mér að koma á æfingu með krökkunum á Dalvík. Þetta var svo gaman, boltinn flaug hjá mér og ég naut þess að fá að vera með á þessum æfingum. Fékk að koma þrjú sumur í röð. Ég spilaði aldrei völlinn en fór á æfingar. Sagan segir að ég hafi æft mig mikið í sumarhúsinu. Eftir þetta gerði ég ekkert í golfinu en þegar ég byrjaði aftur nokkrum árum seinna þá var eins og ég myndi að einhverju leyti það sem Árni hafði kennt mér.

 
Hvers vegna valdirðu GKG?
Ég valdi ekki beinlínis GKG, foreldrum mínum var sagt að þar væri gott barna- og unglingastarf, sem það var og ég eignaðist vini í GKG sem héldu mér þar.

 
Hvort er Mýrin eða Leirdalur þinn völlur?
Leirdalurinn.

 
Hvernig leist þér á vellina okkar síðasta sumar og hefurðu eitthvað að segja um breytingarnar á 10. og 16. á Leirdalnum?
Vellirnir voru fínir, vel hugsað um þá og bara fínir.  Breytingar eru góðar að mínu mati. Þekki nokkra sem höfðu meiðst á 16. braut fyrir breytingu og 10. er orðin miklu skemmtilegri.

 
Tókstu þátt í Meistaramótinu síðasta sumar og ef svo, hvernig var upplifunin?
Já þetta var gott mót.  Eins og ávallt vel haldið utan um það og bara skemmtilegt.

 
Hvernig var síðasta golfsumar hjá þér?
Ég var mikið í golfi síðasta sumar.  Það voru sigrar og það voru sorgir- en heilt yfir gott sumar! 

 
Næsta golfsumar er svo bara rétt við hornið, ertu komin með plan og væntingar inn í það sumar?
Já já já…. Ég er með plan, væntingar og ég er með framtíðardrauma.  Þetta sumar verður það allra besta.

 
Hver er uppáhaldskylfan og í hvaða aðstæðum notarðu hana helst?
Dræverinn eða pútterinn myndi ég segja.

 
Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?
Drauma hollið mitt eru stelpurnar (Laufey, Karen, Gunnhildur) og svo fengi Auður Sigmunds GR að slást í hópinn J

 
Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?
Það er svo margt svo ótal margt sem ég hef lent í skemmtilegu og þetta er rétt að byrja! Held að fyrsti fuglinn í Vestmannaeyjum standi smá upp úr, allar sveitakeppnirnar eða Niðjamótin með pabba.

 
En það vandræðalegasta?
Úff. Það er allra fyrsta GSÍ mótið sem ég fór á upp á Akranes.  Ég var nýkomin með bílpróf og keyrði ein upp á Akranes. Þegar þangað var komið áttaði ég mig á að ég hafði gleymt pútternum. Góður maður lánaði mér pútter. 

 
Hvert er uppáhalds leikformið þitt?
Mér finnst lang skemmtilegast að spila í foursome eða greensome, elska liðakeppnir.

 
Hver eru bestu og verstu golfkaupin sem þú hefur gert í gegnum golftíðina?
Bestu er líklega rafmagnkerra eða öll fötin, maður spilar alltaf vel í nýjum fötum. Verstu kaupin er líklega merki sem stendur á „Katrín“ því ég var svo hrædd um að týna því að eg notaði það aldrei og veit ekkert hvar það er núna.

 

Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?
Ellefta, stutt og laggóð.

 

Uppáhalds holan þín á Mýrinni?
Áttunda, vegna þess að ég dræva beinustu leið inn á grín 

 
Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?

Ætli það sé ekki Grafarholtið.

 

Notar þú golfhermana og ef, hver er upplifunin?
Já ég geri það nánast alla daga.  Þeir eru fínir eins langt og það nær, en það jafnast ekkert á við það að vera sjálfur úti á velli. 

 

Áttu þér fyrirmynd í golfinu?
Það eru svo margir sem maður getur litið á sem fyrirmyndir.  Mikilvægast er að fylgjast með öðrum og sjá hvað maður getur tileinkað sér sjálfur frá öðrum til að gera betur.

 

Uppáhaldsnestið í golfpokanum?
Ég hef alltaf nóg að drekka. Ég elska líka að hafa barnamauk með mér, fljótlegt og þæginlegt.

 

Hvað er lang, lang best við GKG?
Fólkið og aðstaðan!!!