Við hjá GKG erum að leita að vert sem mun sjá um allt sem viðkemur veitingum á svæði GKG. Nú í apríl mun GKG opna nýja og glæsilega Íþróttamiðstöð í henni er 150 manna salur ásamt tveimur fundarherbergjum. Eldhúsið er allt hið glæsilegasta og er búið öllu því sem þarf til að galdra fram það sem hugurinn girnist … og maginn með.

Við leitum að metnaðarfullum aðila sem hefur góða reynslu af því að reka veitingastaði og/eða veisluþjónustu. Viðkomandi þarf að hafa mikla þjónustulund og eiga gott með mannleg samskipti því vertinn er ásamt öðru starfsfólki andlit klúbbsins út á við. GKG er fjölskylduklúbbur og leggjum við mikið upp á barna og unglingastarfinu okkar og þarf vertinn að taka mið af þeim grunngildum GKG. Vertinn mun taka þátt í, ásamt lykilstarfsfólki GKG, að móta heildarþjónustu GKG að þörfum félagsmanna. Með þeim hætti verður hann eða hún hluti af stjórnendateymi GKG.

Áhugasamir einstaklingar sendi inn umsókn með ferilskrá á netfangið agnar@gkg.is fyrir kl 24:00 þriðjudaginn 29. mars 2016.

GKG er með um 2.000 félagsmenn. Með nýrri íþróttamiðstöð mun starfsemi GKG taka miklum breytingum. Við munum þjóna félagsmönnum allt árið um kring þar sem fjöldi golfherma er á neðri hæð hússins ásamt 150 fm púttflöt og aðstöðu til að slá í net. Þá er íþróttamiðstöðin hugsuð sem hringamiðja útivistafólks í Kópavogi og Garðabæ. Á veturna verða skíðabrautir mótaðar og hjólreiðamenn, skokkarar og þeir sem bregða fyrir sér betri fætinum geta fengið sér hressingu í Íþróttamiðstöðinni. Þá er möguleiki á að leigja salarkynnin fyrir ýmsar uppákomur og hugmyndin er sú að fjölskyldufólk geti komið og snætt góðan mat og notið útsýnis sem spannar allt frá golfvellinum til stórbrotinnar fjallasýnar sem oft skartar Snæfellsjöklinum við sjóndeildarhringinn.