Emil Þór Ragnarsson er einn af afrekskylfingum GKG sem sækir nám við háskóla í Bandaríkjunum á golf skólastyrk. Hann er á öðru ári hjá Nicholls State University í Louisiana og fengum við hann til að svara nokkrum léttum spurningum.

Nafn: Emil Þór Ragnarsson
Fæddur: 1994
Meðlimur í GKG síðan 2004
Forgjöf í dag: 1,3
Skóli: Nicholls State University, Thibodaux, Louisiana.
Heimasíða golfliðsins
Upplýsingar um mótaskrá og árangur golfliðs Nicholls State
Aðrir Íslendingar sem leika/hafa leikið með Nicholls State: Kristján Þór Einarsson, Pétur Freyr Pétursson, Andri Þór Björnsson.

Hvernig kom það til að þú fórst í þennan skóla?
Þegar ég byrjaði að skoða skóla voru það eiginlega bara suðurríkin sem komu til greina. Mér fannst mjög mikilvægt að geta spilað og æft golf úti allan ársins hring. Eins og flestir gera þá hófst ég handa við að senda email á þjálfara og þá kom upp áhugi frá nokkrum skólum þar sem Nicholls State var meðal þeirra. Prógrammið þeirra leit vel út og það skemmdi ekki fyrir að Andri Þór Björnsson var fyrir í skólanum, en að hafa Andra hjálpaði mér mikið fyrsta árið.

Færðu skólastyrk?
Já ég er á mjög fínum skólastyrk

Hvaða námi ertu í?
Ég er í alþjóðaviðskiptafræði sem ég útskrifast úr næsta vor.

Hvernig hefur gengið að aðlagast nýju umhverfi og menningu?
Það var frekar erfitt í fyrstu. Það voru mikil viðbrigði fyrir mig að búa á heimavist þar sem ég deildi herbergi með öðrum og maturinn hérna er mjög ólíkur Íslandi (þeir djúpsteikja allt í Louisiana). Eftir fyrstu önnina flutti ég í íbúð þar sem ég var með mitt eigið herbergi og gat eldað minn eigin mat. Ég er orðinn mun betri að elda heldur en ég var í byrjun:)

Menningin hérna er mjög ólík Íslandi og það er ekkert óvenjulegt að fólk sé með byssur í bílunum sínum, t.d. eru liðsfélagar mínir sem eru hérna úr fylkinu þannig. Fyrir utan það að vera miklir “rednecks” hérna í Louisiana þá er þetta mjög ljúft og vinalegt fólk.

Hvað hefur komið mest á óvart?
Það sem kom mér mest á óvart er hitinn og rakinn. Frá mars fram í október er nánast ólíft hérna og finn ég alltaf mest fyrir því ég kem út á haustin. Að spila golf í 38°C og nánast 100% raka er alveg hrikalega erfitt, hvað þá þegar þú þarft að bera pokann þinn í 18 holur.

Eru góðar aðstæður til að æfa og spila?
Já það eru mjög góðar aðstæður hérna fyrir golf. Við erum með æfingasvæði á háskólasvæðinu sem er í 3 mínútna göngufæri frá íbúðinni minni, við notum það nokkrum sinnum í viku fyrir æfingar og svo má ég nota það hvenær sem til að æfa mig sjálfur.

Síðan erum við með tvo heimavelli sem eru reyndar frekar langt í burtu, annar 20 mínútur og hinn 35 mínútur. Sá sem við notum oftar er “private”, því er traffíkin á vellinum mjög lítil og við fáum nánast að hafa hann útaf fyrir okkur þegar við erum þar.

Eru mörg og spennandi mót framundan?
Það eru bara þrjár vikur eftir af haust tímabilinu okkar og eigum við eitt mót eftir. Eftir það kemur frí fram í janúar en þá byrjar vor tímabilið, en þá erum við í 6 mótum.

Eitthvað að lokum?
Vil bara enda þetta á að hvetja alla sem hafa færi á að fara í háskólanám í Bandaríkjunum. Þetta er einstök lífsreynsla sem mótar mann mikið og gefur þér færi að læra betur inn á sjálfan sig, bæði sem golfara og manneskju.

emil2