Samkvæmt tölfræðilegum rannsóknum staffsins hér í GKG var 27% meðlima klúbbsins annarstaðar frá en úr Kópavogi eða Garðabæ á síðasta golftímabili. Það er aldeilis kominn tími á að kynna einn slíkan kylfing til leiks en það er hún Jóhanna Ríkey Sigurðardóttur úr 100 og einum kaffi latte Reykjavík. Þessi 59 ára glaðværa sleggja, eins og við köllum hana líka, kláraði sólar-golfsumarið 2019 með 10.6 í forgjöf og hefur aldrei verið lægri. Hún mun toppa það sólar-golfsumarið 2020 og bara spurning hvort það gerist þegar hún spilar draumahringinn sinn með Suzann Pettersen og þeim Gestsdætrum Huldu Klöru og Evu Maríu?
Hvað dró þig að golfinu og hvenær? Eiginkonan var búin að minnast á það nokkrum sinnum að þegar við yrðum miðaldra þá ættum við að byrja í golfi. Mér fannst það nú algjört rugl, þetta væri bara fyrir eitthvað snobbfólk en ekki svona meðaljónur eins og okkur. Einn góðan veðurdag sumarið 2002 kom hún svo heim og var þá búin að skrá okkur á golfnámskeið í Bakkakoti. Við redduðum okkur lánskylfum og mættum þarna og eftir fyrstu höggin var ekki aftur snúið.
Hvers vegna valdirðu GKG? Vinnufélagar okkar beggja voru í GKG og því lá beinast við að skrá okkur í þann klúbb og við sjáum við ekki eftir því. Þetta var sumarið 2008 en fram að því höfðum við aðallega verið á æfingasvæðinu og spilað þar sem örugglega enginn sá til okkar.
Mýrin eða Leirdalur? Eru báðir frábærir vellir en ég spila Leirdalinn mun oftar.
Stóðu vellirnir undir væntingum þínum sólarsumarið 2019? Já, svo sannarlega. Vellirnir eru alltaf að verða betri og flottari.
Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu? Það er erfitt að gera upp á milli margra skemmtilegra spilafélaga í GKG en ég nefni Gestsdæturnar frábæru, þær Huldu Clöru og Evu Maríu og svo væri gaman að fá Suzann Pettersen með okkur.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum? Þegar ég fékk örn á 5. braut í Mýrinni. Ég átti yfir 100 metra högg inn á flöt en ég er svo lágvaxin að ég sá ekki þegar boltinn fór í holuna . Reyndar hef ég líka fengið örn á 14. braut í Grindavík, í fyrsta skipti sem ég spilaði þann völl. Þar rataði langt innáhögg í holu en það var sama sagan, ég sá því miður ekki boltann fara í holuna.
En það vandræðalegasta ? Þegar ég á örstutt pútt eftir í holu og ætla að reka hann í en boltinn fer heilan hring og lendir á sama stað aftur. Meira en lítið vandræðalegt.
Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt? Já, ég hef tekið þátt í ýmsum GKG mótum og reynt að taka þátt í kvennastarfinu í gegnum árin en meistaramótið er langskemmtilegast og ég hef ekki misst af því síðan ég gekk í klúbbinn.
Texas Scramble eða Betri Bolta? Erfitt að segja, fer svolítið eftir meðspilaranum, en ég segi Texas Scramble.
Uppáhalds holan þín á Leirdalnum? 12. holan – frábær hola, á að vera auðveld en refsar um leið og maður gerir smá mistök.
Uppáhalds holan þín á Mýrinni? 9. holan – flott lokahola, bæði auðveld og erfið.
Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG? Það er völlur uppi í fjöllunum í San Diego sem heitir Mt. Woodson.
Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin? Ég nota hermana allt of lítið enda finnst mér leiðinlegt að slá af mottum en það er gaman að spila þar flotta velli í góðum félagsskap.
Hver er uppáhaldskylfan? Það er driverinn.
Áttu þér fyrirmynd í golfinu? María Guðnadóttir hefur kennt mér margt en mér hefur lánast að fá að spila með henni og fleiri flottum konum í sveitakeppni eldri kylfinga undanfarin ár sem er mjög skemmtilegt og eiginlega hápunktur golfsumarsins.
Hvernig nestar þú þig út á golfvöll? Það er alltaf banani og kranavatn í pokanum og svo versla ég hjá Vigni vert það sem upp á vantar, samlokur eða annað.
Hvað er lang, lang best við GKG? Það er allt þetta góða fólk sem ég hef kynnst í gegnum árin í GKG. Félagsandinn í klúbbnum er alveg einstakur.