Það er aldeilis við hæfi að byrja golfhaustið á að kynnast betur meistaranum á bak við stærstu golfsigra síðustu ára, honum Arnari Má Ólafssyni afreksþjálfara hjá GKG. Þessi hógværi snillingur gerði það gott í golfinu hér heima á síðustu öld og starfaði síðan lengi sem afreksþjálfari í Þýskalandi. Nú hefur hann hreiðrað um sig Garðabæ með fjölskyldu sinni og er hluti af flottu GKG heildinni.  Við heppin! Arnar Már er ´66 módel, forgjöfin hans stendur í 1,7 en hann áætlar að hann spili á forgjöf 4 til 8 þessa dagana því hann spilaði lítið sem ekkert í sumar, enda upptekinn við að aðstoða aðra við að sækja sér titla! Gefum yfirmeistaranum orðið.

Hvað dró þig að golfinu og hvenær?

Ég sá pabba fara með bróður mínum með skrítinn poka með kylfum út í bíl og vildi fara með en fékk ekki.  Nokkrum vikum síðar fékk ég að fara með og kom á golfvöllinn í Hafnarfirði.  Þetta hefur verið 1978.  Þá fékk ég þessa dellu.  

 

Af hverju GKG?

Besti klúbburinn á landinu í dag.

 

Hvort er skemmtilegra, að sjá almennan kylfing ná árangri eða toppspilara sem nær sínum markmiðum?

Hvert einasta skref fram á við, hvort sem það er hjá byrjanda eða atvinnumanni, er það sem heldur manni í þessu.  Litlu sigrarnir sem geta svo leitt til meistaratitla. 

 

Hvort er vænlegra til árangurs … að slá að jafnaði fade högg eða draw högg?

Aðalatriðið er að það komi fade/draw þegar það á að koma.  “að jafnaði” er lykillinn að svarinu.

 

Hvað er mikilvægast, vera langur á braut, vera góður á járnunum, vera góður í kringum flatir eða vera góður púttari?

Það hjálpar leiknum mikið að vera langur OG á braut 🙂  En það er líka mikilvægt að hafa góðan leikskilning, sterkar taugar og húmor fyrir sjálfum sér þegar illa gengur.

 

Hvert er þitt stærsta augnablik sem þjálfari?

Þau eru mörg og erfitt að gera upp á milli.  En í nútíð eru það Íslandsmeistartitlarnir sem ég hef halað inn síðustu þrjú árin.  

 

Úlfar og Arnar fagna Íslandsmeistaratitlum Huldu Clöru og Arons Snæs á Jaðarsvelli 2021

Hverju breytti það í íslensku golfi að hefja viðurkennt golfkennaranám á Íslandi?

Stutta svarið er öllu.  Staðan væri svo allt önnur.  Við erum heppin að þetta skuli vera eins og það er í dag og ekkert sjálfgefið.  Við erum líka heppin að kennaraflóran á Íslandi er fjölbreytt.  Það er mikið af frábæru fólki innan PGA og ég er ánægður að hafa fengið að útskrifa flest þeirra með fullgild réttindi.

 

Snúum okkur að golfaranum Arnari Má 🙂

 

Mýrin eða Leirdalur?

Má segja Mýrdalur!?  Ég spila Mýrina oftar, en Leirdalurinn er Golfvöllurinn.

 

Stóðu vellirnir undir væntingum þínum golfsumarið 2021?

Já og það er góð þróun í þessu hjá okkur.  Maður sér að það er lögð áhersla á að bæta ásýnd og snyrtimennsku og það skilar sér.  Stundum fannst mér mikið gras á flötunum, en það var líka óvenju mikil spretta í sumar og sérstaklega seinnipart sumarsins.

 

Hvað fleira en toppárangur sem þjálfari stendur upp úr hjá þér eftir síðasta golfsumar?

Ég náði að bera á pallinn, mála þakið á sumarbústaðnum og fella ca 40 tré á bústaðarlóðinni.  Eitthvað sem ég hef aldrei gert áður.

 

Rokkari af lífi og sál! Arnar hefur troðið upp með hljómsveit á seinustu tveimur Meistaramótum GKG!

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?

Hér verður maður að setja upp 8 manna holl þar sem spilað verður Four Some Skins Game án utanbæjarmanna.  Hulda og Ástrós eru saman, Aron og Úlli, Gummi Á og Gulli og svo sá sem ég hef þjálfað lengst hann Bjarki með mér.  Þetta yrði hörku leikur,  6 íslandsmeistarar og svo við feðginin 🙂 

 

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á þínum eigin golfferli?

World Cup Qualy með Úlfari á Jamaíka.  Það var mikil reynsla og skemmtilegt mót.  

 

En það vandræðalegasta?

Þegar ég rölti stoltur niður 9 braut á La Manga og komst að því að boltinn sem átti að vera á miðri braut var OB.  Hafði lent í lengdar merkingunni sem var við brautina og skotist 90 gráður út og lá 15 cm OB.  Það versta var að ég mátti ekki þiggja far með golfbíl dómarans því þá hefði ég verið DQ.  Þessi ganga tæpu 300 metra upp í móti er það vandræðalegasta sem ég man eftir. 

 

Tekur þú þátt í GKG mótunum?

Ekki ennþá, alltaf að fylgjast með öðrum spila.

 

Hvert er uppáhalds leikformið þitt?

Liðakeppni þar sem holukeppni er spiluð.

 

Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?

Ætli það sé ekki fyrsta holan vegna þess hve góð og krefjandi byrjunar hola hún er.

 

Uppáhalds holan þín á Mýrinni?

Fjórða holan er frábær hola.  Lætur lítið yfir sér en er ekki öll þar sem hún er séð.  Frábær flöt og alltaf í toppstandi.

Með U18 pilta- og stúlknasveitum GKG á Akranesi

Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?

Berlin Wannsee.

 

Notar þú sjálfur golfhermana og ef svo er hver er upplifunin?

Ég spila reglulega í Hermunum og hef gaman af.  Svo er náttúrulega frábært að æfa í þeim og kenna.

 

Hver er uppáhaldskylfan og í hvaða aðstæðum notarðu hana helst?

Pútterinn og hann er mikið notaður í 5 til 20 cm höggum 🙂 

 

Áttu þér fyrirmynd í golfinu?

Jack Nicklaus var og er mikil fyrirmynd og af kennurunum þá eru það John Jakobs og Hank Haney sem hvað mest áhrif hafa haft á mína kennslu.

 

Uppáhalds nestið í golfpokanum?

Góð samloka.

 

Þýskaland eða Ísland?

Bæði æði. 

 

Hvað er lang, lang best við GKG?

Fyrir utan samstarfsfólk mitt og krakkana sem ég þjálfa þá er það allt hitt fólkið 🙂 

 

Í vel heppnaðri æfingaferð til Vestmannayja vorið 2021