Kæru félagsmenn, í dag er næst síðasti dagur Meistaramótsins. Í dag geta keppendur komið sér í lykilstöðu fyrir lokadaginn og því til mikils að vinna að spila góðan hring.

Við hvetjum ykkur til að koma og horfa á okkar bestu kylfinga keppa sín á milli og við völlinn. Hér að neðan eru upplýsingar um hvern flokk. Þið getið fylgst með í þessum hlekk. Sjón er sögu ríkari. Kíkið því endilega á okkur og njótið dagsins en það sem við höfum upp á að bjóða er:

  • Bein lýsing á skjám í Mulligan ásamt því að hægt er að fá sér labbitúr út á völl og fylgjast með
  • Njóta matar hjá þeim í Mulligan, mælum með Meistaramóts Brunch disknum þeirra
  • Lager útsala ÍSAM í proshop á efri hæð, stútfull búð af Footjoy og Ping fötum, skóm og kylfum á alvöru lagerútsöluverðum.

Meistaraflokkur karla (rástímar frá 13:40 til 15:00 koma í hús 17:10 til 19:30)

Sigurður Arnar Garðarsson Klúbbmeistarinn okkar frá því í fyrra er í fyrsta sæti. Hann tók völlinn í nefið á fyrsta degi og var nálægt vallarmetinu þegar hann kom inn í 65 höggum eða sex höggum undir pari vallarins. Annan hringinn spilaði hann á parinu og er hann í forystu á samtals 136 höggum eða 6 undir pari. Aron Snær Júlíusson, Íslandsmeistarinn okkar, er í öðru sæti, hann er á 141 höggi eða á einu höggi undir pari. Í þriðja sæti er Jón Gunnarsson á 142 höggum eða á pari vallarins.

Meistaraflokkur kvenna (rástímar frá 15:10 til 15:40 koma í hús 19:40 til 20:10)

Kúbbmeistarinn okkar frá því fyrra hún Anna Júlía Ólafsdóttir er með forystuna eftir tvo daga í kvennaflokknum. Hún spilaði hringina tvo á 74 og 82 höggum eða 156 höggum samtals. Katrín Hörn Daníelsdóttir er einu höggi á eftir Önnu, hún spilaði hringina tvo á 79 og 78 höggum eða 157 höggum samtals. Það er svo þéttur hópur kvenna sem getur með góðum hring spilað sig inn í toppbaráttuna á þessum sóknardeggi. Gunnhildur Hekla Gunnarsdóttir er í þriðja sæti á 164 höggum samtals, einu höggi á eftir henni er Elísabet Sunna Scheving. Elísabet Ólafsdóttir er á 166 höggum í fimmta sæti og í sjötta sæti er hún Helga Þorvaldsdóttir á 168 höggum.

Það verður spennandi að fylgjast með þessum kylfingum, hvernig þær nýta sér sóknardaginn.

Það er jafnframt sóknardagur hjá eftirfarandi flokkum:

  1. Karla (rástímar frá 7:00 til 09:00 koma í hús 11:30 til 13:30)
  2. kvenna (rástímar frá 09:10 til 10:00 koma í hús 13:40 til 14:30)
  3. karla (rástímar frá 10:10 til 12:50 koma í hús 14:40 til 17:20)
  4. Kvenna (rástímar frá 13:00 til 13:30 koma í hús 17:30 til 18:00)

Þriðji flokkur karla spilar sinn loka dag í dag. Þá mun það skýrast hver er flokkmeistari 3. flokks karla árið 2022 (rástímar frá 15:50 til 18:00, koma í hús 20:20 til 22:30)

Sjáumst í GKG!

Staffið.