Nýr formaður GKG á alltaf hnetur og rúsínur í golfpokanum sínum og hans uppáhalds hola er sú sem mörgum finnst hvað mest krefjandi, eða sextánda á Leirdalnum en það er holan sem hann náði sér í fyrsta örninn á golfferlinum og það með níunni. Geri aðrir betur!
Jón Júlíusson er 68 ára Kópavogsbúi sem er búinn að vera viðloðandi golfið síðan um aldamótin og er með 11,1 í forgjöf. Við óskum honum innilega til hamingju með formannsstarfið og hlökkum til samstarfsins með honum eins og hann hlakkar til að vinna með okkur, eða eins og Jón segir sjálfur „Ég hlakka til að starfa með öllu því frábæra fólki sem er í GKG, hvort sem um er að ræða barna- og unglingastarfið, afrekskylfingana eða hinn almenna félagsmann.“
Gott plan og aldeilis við hæfi að kynnast þessum flotta GKG-ingi aðeins betur. Gefum Jóni orðið.
Ég er fæddur og uppalinn í Vestur Skaftafellssýslu og gekk í Menntaskólann á Laugarvatni og síðan í Íþróttakennaraskóla Íslands. Ég kenndi síðan í 5 ár í Mosfellssveit og Kennaraháskólanum. Árið 1983 hélt ég til Noregs í framhaldsnám við Norska íþróttaháskólann í Osló . Ég hef síðan starfað sem deildarstjóri íþróttamála hjá Kópavogsbæ frá 1988 þar til fyrir rúmu ári síðan er ég minnkaði við mig í starfi og sinni nú ákveðnum verkefnum á íþróttadeildinni. Ég hef starfað mikið í félagsmálum, við þjálfun og stjórnarstörf, fyrst í ungmennafélögum í sveitinni, og síðar í verkalýðshreyfingunni. Ég var eitt kjörtímabil í bæjarstjórn Kópavogs og sat í skipulagsnefnd bæjarins. Við hjónin vorum með ungbarnasund í Hafnarfirði í 15 ár en ég er giftur Helgu Gunnarsdóttur íþróttakennara og eigum við 3 börn og 7 barnabörn.
Hvað dró þig að golfinu og hvenær?
Við hjónin ásamt börnum okkar höfum ávallt verið mikið í íþróttum og útivist. Ég hafði alltaf horft til golfsins og það varð úr að ég fór á námskeið árið 1999 og skráði mig í GKG.
Hvers vegna valdirðu GKG?
Það lá beinast við að ganga í Golfklúbbinn í sveitarfélaginu mínu, það kom ekkert annað til greina.
Hvort er Mýrin eða Leirdalur þinn völlur?
Mér finnst Leirdalurinn skemmtilegri þó svo Mýrin sé líka krefjandi völlur.
Hvernig leist þér á vellina okkar síðasta sumar og viltu bæta einhverju við það sem félagsmenn hafa sagt um breytingarnar á 10. og 16. á Leirdalnum?
Vellirnir voru með besta móti í sumar og breytingarnar sem gerðar voru á þessum brautum fyrir sumarið heppnuðust einstaklega vel að mínu mati. Líka verða þær endurbætur sem gerðar hafa verið nú í haust til mikilla bóta fyrir golfið næstu árin.
Hvernig var annars golfsumarið þitt?
Golfsumarið var mjög gott hjá mér í sumar, mikið spilað og forgjöfin gekk örlítið niður.
Tókstu þátt í síðasta meistaramóti og ef svo, hvernig var upplifunin?
Já ég spilaði í 65+ flokknum af rauðum teigum og mér fannst það skemmtilegt.
Hvert er uppáhalds leikformið þitt?
Holukeppni finnst mér skemmtilegasta formið.
Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?
Það er sextánda holan. Þar setti ég líka fyrsta örninn á ferlinum með níunni af rúmum 100 metrum. Hvert högg skiptir máli því hætturnar leynast beggja vegna brautar sem og holtið góða, sem vill oft verða örlagavaldur á hringnum.
Uppáhalds holan þín á Mýrinni?
Fjórða holan er í uppáhaldi hjá mér, tiltölulegu auðveld með holuna skorna vinstra megin en mjög erfið þegar holan er skorin aftan við glompuna hægra megin.
Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?
Þeir eru nokkrir, Urriðavöllur, Hvaleyrin, Vestmannaeyjar og Kiðjabergið sem 18 holu vellir en Sigló, Húsavík og Brautarholtið sem 9 holu vellir.
Notar þú golfhermana og ef, hver er upplifunin?
Já, ég hef notað þá frá byrjun og mér finnst það frábært að geta haldið við og bætt sveifluna allan ársins hring.
Hver er uppáhaldskylfan og í hvaða aðstæðum notarðu hana helst?
Það er 56° kylfan sem ég nota mest í kringum flatirnar og í glompuhöggin.
Áttu þér fyrirmynd í golfinu?
Tiger Woods og síðan Rory Mc Ilroy nú seinni árin.
Uppáhaldsnestið í golfpokanum?
Hnetur og rúsínur.
Hvernig leggst það í þig að taka við formannskeflinu í GKG?
Mér líst vel á það. Það eru umfangsmikil verkefni sem bíða stjórnar og starfsmanna hjá klúbbnum. Áframhaldandi uppbygging aðstöðunnar, áhaldahúss og nýja vallarins sem leysa á Mýrina af, sem og á nýju æfingasvæði fyrir GKG-inga á öllum getustigum. Mikilvægt er að fyrstu kynni iðkenda af golfíþróttinni s.s. á sumarnámskeiðum barna og nýliðanámskeiðum, séu jákvæð, þannig að þau finni sig velkomin í klúbbinn og aðstaðan sé eins og best verður á kosið. Það sama má segja um afrekskylfingana okkar, þar skiptir góð æfingastaða og umgjörð gríðar miklu máli. Ég hlakka til að starfa með öllu því frábæra fólki sem er í GKG, hvort sem um er að ræða barna- og unglingastarfið, afrekskylfingana eða hinn almenna félagsmann.