Í Garðabæ býr rólegur 16 ára ljúflingur og mikill golfsnillingur sem heitir Guðmundur Snær. Hann byrjaði að æfa golf þegar hann var fjögurra ára gamall, er núna með 4,8 í forgjöf, æfir eða spilar á hverjum einasta degi og á aldeilis golfframtíðina fyrir sér. Guðmundur Snær vann sinn flokk í Meistaramótinu síðasta sumar og var einungis 15 ára þegar hann sló draumahöggið. Það gerði hann með áttunni af öftustu teigum á fjórðu á Leirdalnum og stimplaði sig inn í Einherjaklúbbinn með holu í höggi. Vel gert Guðmundur Snær!
En einbeiting þessa GKG meistara getur líka verið svo mikil að hann tekur ekki eftir því sem er að gerast í kringum hann. Eins og þegar hann gekk einu sinni fram fyrir keppanda í sveitarkeppni. Sá keppandi var að fara slá upphafshöggið sitt en okkar maður var að spila brautina við hliðina og ekki að fylgjast með. Það varð allt vitlaust ? Við gefum hinum hógværa Guðmundi Snæ orðið og kynnumst þessum unga flotta kylfingi betur.
Hvað dró þig að golfinu og hvenær?
Þegar ég var 4 ára og Einar Gunnar frændi var að spila golf og ég fékk barnakylfur þá til að prófa.
Hvers vegna valdirðu GKG?
Hann er í Garðabæ og hann er með besta barnastarfið.
Hvort er Mýrin eða Leirdalur þinn völlur?
Leirdalur.
Hvernig leist þér á vellina okkar síðasta sumar og hvernig leggjast breytingarnar á 10. og 16. á Leirdalnum í þig?
Hann var þurr og góður, breytingar eru flottar.
Hvernig var síðasta golfsumar hjá þér?
Það var gott, ég lækkaði forgjöfina og tók þátt í mínu fyrsta móti fullorðinna í GSÍ mótaröðinni.
Tókstu þátt í Meistaramótinu og ef svo, hvernig var upplifunin?
Já ég keppti í flokki 15-16 ára. Hún var góð, ég vann minn flokk.
Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?
Ég, Guðjón Frans, Guðlaugur Sveins og Rory fengi að vera með okkur. Spilum af svörtum (59) teigum.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?
Að fara holu í höggi á 4. braut á Leirdal.
En það vandræðalegasta?
Þegar ég gekk fram fyrir keppanda í sveitarkeppni sem var að fara slá upphafshöggið sitt en ég var að spila brautina við hliðina og var ekki að fylgjast með. Það varð allt vitlaust.
Hvert er uppáhalds leikformið þitt?
Höggleikur.
Hver eru bestu og verstu golfkaupin sem þú hefur gert í gegnum golftíðina?
Golfpoki frá Titleist eru bestu kaupin en Adidas golfskór þau verstu.
Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?
Fjórða holan, maður getur farið holu í höggi á henni.
Uppáhalds holan þín á Mýrinni?
Holur 2 og 9 eru flottar, báðar með flott landslag.
Hver er uppáhalds völlurinn fyrir utan GKG?
Oddur.
Notar þú golfhermana og ef, hver er upplifunin?
Já ég æfi i þeim á hverjum degi.
Hver er uppáhalds kylfan og í hvaða aðstæðum notarðu hana helst?
56° fleygjárnið, ég nota það mest í kringum flatir.
Áttu þér fyrirmynd í golfinu?
Tiger Woods.
Uppáhalds Nestið í golfpokanum?
Gifflarsnúðar, maryland kex, kirsuberja tómatar og powerade.
Hvað er lang, lang best við GKG?
Inni æfingaraðstaðan er auðvitað flottust í heimi og síðan eru félagarnir sem æfa með mér geggjaðir. Eins eru þjálfarar GKG meiriháttar góðir og allt starfsfólk GKG er líka gott. Þannig að það er alltaf gaman að koma í Íþróttamiðstöð GKG til að æfa, spila inni í hermum eða úti á völlum GKG.