Afreksþjálfari GKG, Arnar Már Ólafsson, hlaut um helgina viðurkenninguna 5-star professional frá CPG samtökunum (Confederation of Professional Golfers). Samtökin samanstanda af yfir 40 PGA samtökum Evrópulanda og víðar.
Fimm stjörnu viðurkenningin er æðsta viðurkenning sem veitt er þeim PGA kennara sem hefur helgað sig þjálfun kylfinga um áratuga skeið. Yfirskrift viðurkenningarinnar er “Seeking to recognise and honour the best in the business…” Meðal þess sem litið er til er að einstaklingar hafi sýnt framúrskarandi þekkingu, stöðugt aflað sér þekkingar og sýnt framsækni og framúrskarandi vinnubrögð.
Viðurkenningin var fyrst veitt árið 1992 og hafa heimsþekktir golfkennarar á borð við John Jakobs, Pete Cowan, Bob Torrance, auk atvinnukylfinga á borð við Bernhard Langer, Seve Ballesteros og Costantino Rocca hlotið þessa miklu viðurkenningu.
Sem afreksþjálfari í GKG leiðir Arnar tækniþjálfun tuga ungmenna. Hann þjálfar einnig atvinnumennina Aron Snæ Júlíusson, Bjarka Pétursson og Guðmund Ágúst Kristjánsson sem leikur á efsta stigi atvinnumanna í Evrópu, DP World Tour.
Arnar var einn af stofnendum Golfkennaraskóla PGA á Íslandi, sem hefur fulla viðurkenningu CPG samtakana, og stýrir skólanum enn í dag. Alls hafa um 60 útskrifast með fullgild PGA golfkennararéttindi frá árinu 2008. Skólinn hefur aldrei verið eftirsóttari og sækja nú um 50 aðilar skólann.
„Ég er mjög stoltur og þakklátur. Það verður að hafa í huga er að allt þetta sem ég hef gert er ekki hægt nema eiga fjölskyldu sem nennir svona kalli,“ sagði Arnar Már. „Golfkennaraskólinn stendur uppúr hjá mér. Það er erfiðasta og besta verkefnið sem ég hef tekið að mér og af öllu sem ég hef lært, þá hef ég lært mest af því. Framtíðin í golfkennslunni er spennandi en hún virðist svolítið vera að færast inn í box, þar sem allt er mælt. Það er góð þróun fyrir okkur, en það gleymist að kenna leikinni útá vellinum sjálfum. Það væri gott að hafa betra aðgengi að æfingavöllum svo PGA þjálfarar gætu sinnt því hlutverki betur.“
Hér er hægt að skoða lista yfir þá aðila sem hlotið hafa æðstu viðurkenningar PGA.
Þetta er enn ein rósin í hnappagatið hjá Arnari, sem m.a. hefur hlotið gullmerki GSÍ og verið valinn PGA kennari ársins á Íslandi fjórum sinnum. Þetta er stórkostlegt afrek og Arnar Már er vel að þessu kominn. Innilega til hamingju með viðurkenninguna!