Feðgarnir Baldur Bragason og Baldur Bragi léku fjóra hringi á Leirdalsvelli á 24 tímum, geri aðrir betur! Eiginkonan og yngri sonur léku með þeim fyrsta hringinn en svo bættust aðrir við á seinustu tveimur hringjunum.
En gefur Baldri orðið hvernig þetta kom til allt saman:
“Á Covid tímum fékk ég nokkrar áhugaverðar og geggjaðar hugmyndir. Ein þeirra var að reyna að spila 72 holur á innan við sólarhring, þ.e. spila 4 golfhringi í röð án mikillar hvíldar og má því kalla þetta nokkurs konar golf-marathon viðburð. Sumrin á Íslandi gefa okkur tækifæri á að vera úti allan sólarhringinn fyrir þá sem kjósa að gera það og 21. júní er lengsti dagur ársins á Íslandi. Í kringum þennan lengsta dag ársins er birtan frábær og bjart allan sólarhringinn. Næturnar eru einnig gríðarlega friðsælar og fallegar á sumrin á Íslandi.
Golf-marathon reynir auðvitað enn meira á líkamlegan og andlegan styrk þegar 72 holur eru spilaðar á innan við sólarhring heldur en að spila 72 holur á 4 dögum, sem er venjan í helstu golfkeppnum á Íslandi og um allan heim. Kosturinn er augljós – það tekur aðeins einn sólarhring að leika 72 holur í staðinn fyrir 4 daga. Hver hefur tíma í 4 daga keppni árið 2023? ?
Það var góð langtímaspá fyrir 21. júní og nokkrum dögum áður hafði ég samband við Úlfar Jónsson, golfgoðsögn hjá GKG. Ég sagði honum frá þessu golf-marathon viðburði sem mig langaði að framkvæma í Leirdalnum/GKG, mínum heimaklúbbi. Úlfar tók strax vel í þessa geggjuðu hugmynd og aðstoðaði mig við að setja upp rástímaplan og hvernig þetta væri mögulega hægt að framkvæma. Ég sagði svo fjölskyldunni að það væri komin ný áskörun á listann hjá gamla, þ.e. spila 72 holur á innan við sólarhring. Viðtökurnar hjá fjölskyldunni voru framar vonum og óskaði strax eldri sonur minn, Baldur Bragi, að fá að koma með og reyna við þessa áhugaverðu golfþrekraun. Inga konan mín og Daníel yngri sonur minn vildu einnig spila með okkur fyrsta hringinn og við ákváðum í sameiningu að byrja kl. 20:30 á miðvikudeginum 21 júní 2023.
Rástímaplanið var svona:
Miðvikudagur 21/6 kl. 20:30
Fimmtudagur 22/6 kl. 01:30
Fimmtudagur 22/6 kl. 08:20
Fimmtudagur 22/6 kl. 14:20
Hollin voru svo opin öllum öðrum golfurum og gat því hver sem er spilað með okkur. Við fengum einn góðan vin til að spila með okkur á fimmtudeginum kl. 08:20, en það hafði enginn áhuga að spila með okkur á fimmtudeginum kl. 01:30 um hánóttina. Það fannst mér undarlegt, því fáir hafa spilað golf á þessum tíma áður og veðrið var frábært.
Við feðgar náðum að klára þessar 72 holur og gengum um það bil 42 km á c.a. 22 klukkustundum. Spilamennskan hjá okkur feðgum var bara framar vonum, en auðvitað voru slæmar holur inn á milli. Við vorum nokkuð þreyttir í lokin og erfitt að halda fullri einbeitingu síðasta hringinn. En við pössuðum okkur á því að hafa alltaf gaman og hafa alltaf einhverja keppni í gangi svo að fókusinn og getan væri sem oftast til staðar. Besti hringurinn minn var þriðji hringurinn kl. 08:20 á fimmtudeginum á 82 höggum (ein sprengja, 8 högg) sem var lækkun á forgjöf úr 9,9 í 9,8. Í hollinu var háð mikil keppni gegn miklum keppnismanni og góðum vin, Sigga Guðjóns þvagskurðarlækni. Frábært að fá hann með okkur einn hring í þessari geggjuðu golfþrekraun og ég er nokkuð viss um að hann verði með næst.
Kannski verður golf-marathon árlegur viðburður hjá GKG eða jafnvel GSÍ í framtíðinni? Golf-Marathon hugmyndinni er hér með kastað út í kosmosið ?
Takk Úlfar og GKG fyrir að sýna þessari hugmynd áhuga. “
Bestu golfkveðjur,
Baldur Bragason