GKG-ingurinn að þessu sinni er úr efstu hillunni en það er hún Guðrún okkar á skrifstofunni.

Guðrún var ráðin til starfa hjá GKG 2010 en lætur af störfum á næstunni. Það er óhætt að segja að Guðrún hafi sett mark sitt á þjónustu við félagsmenn sem eiga án efa eftir að sakna þess að kíkja við í smá spjall til hennar á skrifstofuna um heima og geima.

Guðrún mun þó kíkja við af og til enda veit hún að það þarf að passa upp á að allt sé í föstum skorðum. Aggi og Úlli þekkja það vel að það þýðir ekkert að vera með neitt kæruleysi í skrifstofuhaldinu, þá hefur Guðrún verið fljót að skikka þá til.

En heyrum líka aðeins í Guðrúnu sjálfri.

Hvenær fórstu að vinna fyrir GKG, hvernig kom það til og hvaðan komstu?

Ég byrjaði í febrúar 2010 en mágur minn var í stjórn og vissi að það vantaði starfsmann á skrifstofuna og þar sem ég var atvinnulaus eftir að fyrirtækið sem ég var hjá fór í þrot þá fór ég í viðtal og hef verið hér síðan.

Hafðir þú snert á golfkylfum á þessum tímapunkti og hvernig lagðist það í þig að fara að lifa og hrærast innan um golfara?

Nei ég get ekki sagt að ég hafi snert golfkylfu, en ég var alveg tilbúin að reyna mig á þessu sviði.

Fylgistu með í keppnisheimi golfsins og áttu þér þinn uppáhalds kylfing eða kylfinga?

Nei

Er eitthvað í kringum snattið okkar GKG inganna þinna í kringum skrifstofuna sem er eftirminnilegt og höfum við ekki bara oftast verið ljúfir og góðir kúnnar?

Jú allir þeir sem ég hef kynnst eru bara hinir bestu GKG-ingar og ég er vön að vinna undir álagi og rápinu hef ég vanist og hef náð að láta það ekki trufla mig of mikið.

Hvað er það eftirminnilegasta sem þú hefur lent í á vinnuferlinum í GKG og hvað er það vandræðalegasta (ef eitthvað)?

Já ætli það eftirminnilegasta sé kannski þegar Ingibjörgu Ólafs tókst að draga mig fyrsta hringinn og hafa þolinmæði í að leiðbeina mér eftir það. En það vandræðalegasta er kannski þegar ég var ný byrjuð og var hringt inn og spurt hvort “reinsið” væri opið og ég gat ekki gólað á neinn mér til aðstoðar þar sem ég var ein í húsinu þá, svo ég spurði bara blessaðan manninn hvort hann gæti talað íslensku.

Hvort hefur þú rætt meira um golf eða skrifstofumál við Agga og Úlla og hvort er skemmtilegra?

Alveg örugglega um skrifstofumál. Er ekki mikið fyrir að ræða um golf nema rétt þegar ég spila sem er ekki mikið.

Hvað er best við GKG?

GKG andinn og allt það góða fólk sem ég hef unnið með og kynnst á þessum 15 árum og svo ánægjan að sjá þróunina hjá félaginu. Ég byrjaði í sumarhúsi, fór svo í gámahús og enda svo í þessu glæsilega húsi sem er í dag, það er mikill metnaður á öllum sviðum hjá félaginu sem á hrós skilið fyrir það. Áfram GKG.

Það hefur sést til þín á Mýrinni af og til síðustu ár og spurning hvort við fáum ekki bara að njóta þess oftar að hafa þig með okkur úti á velli núna þegar hægist um hjá þér eða er það eitthvað annað sem kallar á frítímann fram undan?

Það á nú eftir að koma í ljós en í dag kalla ferðalög og alls konar útivist innanlands og utan meira á mig en golfið.

Áttu þínar eigin kylfur og hefurðu sótt þér formlega golfkennslu?

Ég hef aldrei eignast nýja kylfu en systir mín hefur arfleitt mig af kylfum þegar hún hfur endurnýjað sitt og það hefur svo gengið á milli í fjölskyldunni. Ég hef farið í nokkra tíma í kennslu en ekkert viðhaldið því.

Þegar þú tekur golfhring, er þá einhver ein kylfa meira uppáhaldi hjá þér en önnur og áttu minningu um uppáhalds högg?

Sjöan og hálfvitinn voru smá inni hjá mér en uppáhalds höggið var þegar fyrsta upphafhöggið mitt flaug upp í loftið og ég heyrði hvininn.

Í hvaða sveitarfélagi býrðu og hvað ertu lengi upp í GKG þegar smá „sakn“ hellist yfir þig og þig langar að kíkja á okkur?

Ég bý í Garðabænum, nánar í Goðatúni og er ekki lengi í vinnu, en ég mun örugglega lalla til ykkar í kaffi þegar sólin hækkar á lofti og verður notalegt að sitja úti og líta yfir völlinn.

Myndirnar bera þess merki að Guðrún og Hilmar maðurinn hennar elska útiveru í náttúru Íslands. Vonandi taka þau golfið föstum tökum, enda aldrei of seint að gera það. Hvað er betra en að ferðast um landið og spila golfvelli sem víðast?

Við þökkum Guðrúnu enn og aftur fyrir frábært samstarf og ljóst að við munum sakna hennar nærveru.