GKG-ingurinn Sólveig Smith
Eitt af því sem gerir GKG að góðum og flottum golfklúbbi felst í því hve margir sjálfboðaliðar eru boðnir og búnir til að hoppa til þegar á þarf að halda og mikið sem klúbburinn er þakklátur fyrir það framlag síns fólks. Í sjálfboðaliðahópnum er m.a. 74 ára gamall Kópavogsbúi með 29,2 í forgjöf sem býr svo vel að hafa einstaklega gott útsýni yfir 13. brautina á Leirdalnum og hefur orðið vitni af mörgum snilldartöktunum á þeirri braut. Ekki „holu í höggi“ samt, enn sem komið, en höggið það dettur klárlega einhvern daginn, vottað af okkar konu. Við erum að tala um hina eldhressu Sólveigu Smith, sem er jafnan kölluð “Frú Smith”, sem er ekki einungis að fara inn í þetta haust eftir gott golfsumar heldur hefur hún líka lagt flestum mótum sumarsins lið í sjálfboðaliðastarfi. Heyrum í þessum öfluga GKG-ingi.
Hvernig hófst golfævintýrið þitt?
Ég flutti í eitt af húsunum ofan við þrettándu brautina árið 2016 og eftir að hafa fylgst dágóða stund með kylfingum slá á þeirri braut þá sá ég að þetta væri nú ekki flókið sport og eitthvað sem ég gæti sko alveg gert. Þegar sú ákvörðun var komin þáði ég að gjöf næstum því heilt sett af karla stálkylfum sem ég notaði mitt fyrsta golfsumar. Það voru reyndar einungis tvær kylfur sem ég lagði í að nota á þessum tímapunkti, 7járn og pútter og með þeim tókst ég á við Mýrina allt það sumar. „Leirdalurinn var bara fyrir alvöru kylfinga“ ákvað ég en fékk svo hvatningu og leiðsögn til að takast á við 18 holurnar, sem betur fer því í dag er Leirdalurinn svo sannarlega minn heima- og uppáhalds völlur.
Ertu enn að nota karlakylfurnar tvær?
Aldeilis ekki. Frá Mýrarsumrinu mína fyrsta þá er ég búin að gera allskonar kaup á búnaði í kringum golfið og bestu kaupin eru Cobra settið sem ég er með núna. Ég hef líka gert slæm kaup og þau verstu eru allskonar æfingartæki sem ég nota svo ekki neitt.
Viltu lýsa fyrir okkur útsýninu sem þú hefur að heiman yfir 13ándu brautina?
Þessu útsýni er einfaldlega ekki hægt að lýsa eða því hversu gaman það er að horfa á kylfingana slá. Mér finnst mest gaman að horfa á unga kylfinga og líka þessa sem eru nýir. Ég játa samt að ég horfi með meiri áhuga á þá sem ég þekki og fylgist vel með hvort þeir séu að næla sér í fugl eða nái allavega pari. Já, það er alveg hægt að gleyma sér við gluggann og merkilegt líka að fylgjast með því hve margir taka þessa líka flottu æfingarsveiflu og slá svo allt öðruvísi.
Hvernig hefur þér sjálfri gengið með golfsveifluna upp á síðkastið?
Sjálf gat ég lítið spilað síðasta sumar svo planið var að taka golfið með trompi þetta sumarið. Ég sæki mér ekki oft kennslu og undirbúningurinn er mest bara sá að hlakka til og trúa því að næsti hringur verði draumahringurinn með eintómum fuglum og pörum. Í því samhengi þá er þetta sumar búið að vera alveg ljómandi gott hjá mér.
Ertu mikið að taka þátt í golfmótum?
Ég keppi ekki mikið og þá aðallega í mótum sem haldin eru af GKG. Meistaramótið stendur þar upp úr en það mót er ein stór skemmtun, hvort sem ég er að spila í mótinu eða kem að því sem sjálfboðaliði. Það eru engin leynitrix í gangi, heldur gengur þetta einfaldlega út á að hafa gaman og svo er ekki verra að hafa smá keppnisskap í pokanum líka.
Þess má geta að Sólveig kom sér í verðlaunasæti í sínum flokki í meistaramóti þessa sumars.
Hvert er spilamunstrið þitt?
Spilamunstrið mitt hefur þróast þannig að ég spila mest með sömu félögunum en skrái mig líka í lausa tíma með hverjum sem er. Það er líka skemmtilegt og margur vinskapurinn sem hefur hafist þannig.
Hvert er draumahollið þitt og hvaða utanfélagskylfingur fengi að vera með?
Draumahollið mitt er venjulega síðasta hollið sem ég spilaði með og það eru svo margir GKG-ingar í uppáhaldi hjá mér að það er ekkert pláss fyrir utanfélagskylfing í mínu draumaholli.
En áttu eitthvað uppáhalds golfnesti?
Í golfpokann minn ratar allskonar góðgæti en það er ekkert eitt af því í meira uppáhaldi en annað.
Hver er uppáhalds völlurinn?
Eins og fram hefur komið þá er uppáhalds hringurinn minn á Leirdalnum, þar líður mér vel og vil helst bara vera, ég tala ekki um eins og völlurinn hefur verið í sumar, svo ótrúlega fallegur. Mér þykir ekki eins gaman að spila Mýrina en geri það þó stundum. Ég spila ekki mikið aðra velli, en Flúðir komu skemmtilega á óvart.
Áttu uppáhalds holu á Leirdalnum eða Mýrinni?
Mest spennandi holan í GKG finnst mér vera sú sautjánda en sú fjórða á Mýrinni fer ekki vel með mig. Golffélagar mínir segja að það sé vegna þess að ég sé búin að ákveða það í hausnum á mér. Það má vera.
Áttu uppáhalds kylfu og uppáhalds högg?
Uppáhalds kylfan mín er 3tré og uppáhalds höggið er annað höggið, sem er oft mjög langt og gott hjá mér. Innáhöggin eru hins vegar ekki minn kapituli, það eru margir búnir að sýna mér og reyna að kenna mér réttu tökin þar en ekkert hefur dugað hingað til.
Notarðu golfherma?
Yfir vetrartímann fer ég reglulega með sömu félögum mínum í golfherma GKG. Það er ekki sambærilegt við að spila úti, sem er miklu skemmtilegra. Fyrir mér er þetta með hermana fyrst og fremst samvera með félögunum. Það að hafa gaman saman á meðan veturinn gengur yfir og hægt er að skunda út á völl með kylfurnar enn á ný.
Hver var kveikjan að því að þú varðst svona öflug í sjálfboðaliðastarfi klúbbsins?
Ég spilaði mikið með GKG konum og varð svo hluti af kvennanefndinni í nokkur ár. Þar kynntist ég mörgum góðum konum sem voru á sínum fyrstu metrum í golfinu, eins og ég. Svo leiddi þetta hvert af öðru þannig að núna er ég með í mótanefndinni, sem er alveg ótrúlega skemmtilegt. Sjálfboðaliðastarfið er heilt yfir mjög gefandi starf og þar er pláss fyrir fleiri.
Hver er uppáhalds minningin þín af golfvellinum?
Mín eftirminnilegasta minning af golfvellinum er jafnframt sú vandræðalegasta. Þannig var að þegar einn meðspilari minn var að pútta þá fór kúlan hans fram hjá holunni og ég setti fótinn fyrir svo boltinn færi ekki of langt í burtu. Það varð uppþot í hollinu!
Amen á eftir efninu hér og spurning hversu snemma á golfferlinum þessi uppákoma varð ????
Að lokum, hvernig fer um þig í GKG?
Það fer vel um mig í GKG og mér er alltaf minnisstætt hvað það var tekið einstaklega vel á móti mér þegar ég gekk í klúbbinn á sínum tíma. Að vera með GKG-ingum er andlega og líkamlega nærandi samvera. Það að mæta í hús og hitta allskonar fólk sem tekur brosandi á móti manni og býður góðan dag er bara yndislegt og segir mikið til um þann góða anda sem ríkir á þessum góða bæ. Það að vera hluti af þessu samfélagi er bara engu líkt.
Takk fyrir skemmtilegt viðtal Sólveig og sjáumst á vellinum!