Hluti af því lífi og fjöri sem er í GKG er í kringum hóp af ungu fólki sem lætur þar til sín taka með kylfurnar og gefur þeim eldri ekkert eftir. Fagstjóri íþróttasviðs er Haukur Már Ólafsson og innan sviðsins æfa u.þ.b. 300 krakkar. Æfingarnar fara fram í Íþróttamiðstöðinni og í Kórnum og eru á milli kl.15:00 og 19:00 alla virka daga. Þar æfir unga fólkið sveifluna í hermunum, stutta spilið á flötunum og tekst á við ýmiss önnur verkefni sem hjálpa þeim að bæta sig stöðugt þegar kemur að golfsveiflunni. Hér er um að ræða íþróttastarf sem gefur mikið af sér, bæði í meistaratöktum og skemmtilegu félagsstarfi.

En hvað finnst krökkunum sjálfum, er gaman að æfa og spila golf? 
Heyrum í nokkrum úr keppnishóp GKG.

 

Arna Dís Hallsdóttir

Arna Dís er 11 ára Garðbæingur með 30,9 í forgjöf. Myndin er frá því þegar Arna Dís varð Klúbbmeistari 10 ára og yngri árið 2024 en hún var erlendis sumarið 2025 og missti af mótinu það árið.  

En að spurningunum til Örnu Dísar.

Á hvaða aldri varstu þegar þú byrjaðir að æfa og spila golf?  Ég fór fyrst í golf 2 ára en byrjaði að æfa þegar ég var 6 ára.

Æfir þú aðrar íþróttir?  Já ég æfi líka hópfimleika með Stjörnunni.

Hver er styrkleiki þinn í golfinu? Ég er jákvæð og búin að búa til flotta rútínu. Mér finnst ég góð með 7 járni, í vippunum og að pútta.

Hvað þarftu helst að bæta? Ég er alltaf að reyna að bæta mig í öllu. Er með það markmið spila að minnsta kosti einn hring í viku næsta sumar á milli móta.

Hvað finnst þér skemmtilegast við golfið? Að spila með fjölskyldunni og fara til útlanda að spila golf. Mér finnst líka skemmtilegt að fara á mót, þá sérstaklega sveitakeppnina með stelpunum í GKG. Skemmtilegasta mót sumarsins var þegar við spiluðum í Sandgerði og þurftum að berjast við kríurnar. Það var líka mjög gaman að fara á golf á Akranesi í sumar.

Með hverjum tekur þú oftast hring þegar þú ert ekki að æfa eða keppa? Með mömmu, pabba, Emblu Dröfn og Emblu Hrönn systur minni.

Hver er uppáhalds golfæfingin þín? Þegar við spilum hringi á æfingum og að slá í hermunum því þar get ég mælt hvað ég slæ langt.

Hvaða þrjá kylfinga viltu hafa með þér í drauma hollinu þínu? Ég veit það ekki alveg. Mér finnst mjög gaman að spila með fjölskyldunni minni og vinkonum. Þá er ég í góðum félagsskap og fæ að fylgjast með framförum hjá öllum nema aumingja mömmu og pabba.

 

 

 

 

Bjartur Ægisson

Bjartur er 13 ára Kópavogsbúi, var 11 ára þegar hann byrjaði að æfa og spila golf og er með 6,3 í forgjöf. Vel gert á tveimur árum.

Æfir þú aðrar íþróttir? Nei ekki lengur, en ég æfði fótbolta.

Hver er styrkleiki þinn í golfinu? Stutta spilið er minn styrkleiki.

Hvað þarftu helst að bæta? Það sem ég þarf helst að bæta er liðleiki.

Hvað finnst þér skemmtilegast við golfið? Það er alltaf hægt að bæta sig og áskoranirnar á vellinum eru svo breytilegar og ég verð að treysta alfarið á sjálfan mig.

Með hverjum tekur þú oftast hring þegar þú ert ekki að æfa eða keppa? Félögum mínum í GKG sem eru Sveinbjörn, Jón og Darri og svo pabba og Helgu stjúpmömmu.

Hver er uppáhalds golfæfingin þín? Vipp og pútt /Up and down.

Hvaða þrjá kylfinga viltu hafa með þér í drauma hollinu þínu? Gunnlaug Árna, Lydiu Ko og Tiger Woods. 

 

Embla Dröfn Hákonardóttir

Embla Dröfn er 12 ára Kópavogsbúi með 11,2 í forgjöf og var 6 ára þegar hún byrjaði að æfa og spila golf. Heyrum hvað hún hefur um golfið sitt að segja,.

Æfir þú aðrar íþróttir? Já, leiklist og dans.

Hver er styrkleiki þinn í golfinu? Pútt og driver og mér finnst gaman að keppa.

Hvað þarftu helst að bæta? Vipp og pútt, verð stressuð þegar ég er að keppa í stutta púttinu.

Hvað finnst þér skemmtilegast við golfið? Að keppa og félagsskapurinn.

Með hverjum tekur þú oftast hring þegar þú ert ekki að æfa eða keppa? Með Örnu Dís, annars bara með hverjum sem er.

Hver er uppáhalds golfæfingin þín? Það er æfingahringur.

Hvaða þrjá kylfinga viltu hafa með þér í drauma hollinu þínu?
Bryson DeCambeau, Rory Mcllroy, og Tiger Woods

 

 

 

 

Gabríel Þór Sigurðarson

Gabríel Þór er 12 ára Garðbæingur með 29 í forgjöf. Myndin er af honum með bikarinn góða þegar liðið hans hjá GKG vann það afrek í sumar að hreppa Íslandsmeistaratitil golfklúbba 12 ára og yngri.

Spyrjum hann um golfið.

Á hvaða aldri varstu þegar þú byrjaðir að æfa og spila golf? Ég fékk fyrstu golfkylfurnar þriggja ára og byrjaði þá að leika mér. Ragnar Már Garðarsson var svo með golfnámskeið á Álftanesi þegar ég var 7 ára og eftir það hvatti hann mig til að byrja að æfa hjá GKG og ég skráði mig í klúbbinn í kjölfarið.

Æfir þú aðrar íþróttir? Ég æfði körfubolta áður en núna æfi ég bara golf og langar að einbeita mér að því.

Hver er styrkleiki þinn í golfi? Vipp og löng pútt eru minn helsti styrkleiki.

Hvað þarftu helst að bæta? Það má alltaf bæta sig í öllu, en í augnablikinu eru það upphafshöggin.

Hvað finnst þér skemmtilegast við golfið? Það er ansi margt. eins og til dæmis að æfa og spila með vinum mínum. Líka að fá verkefni frá þjálfurunum en þegar ég er að spila þá er það best að setja niður gott pútt.

Með hverjum tekur þú oftast hring þegar þú ert ekki að æfa eða keppa? Pabba mínum.

Hver er uppáhalds golfæfingin þín? Up and down, þar sem maður vippar á holu og þarf að einpútta.

Hvaða þrjá kylfinga viltu hafa með þér í drauma hollinu þínu? Pabba, Rory og Bryson DeChambeau og við myndum spila Augusta National.

 

Við þökkum Gabríeli Þór, Emblu Dröfn, Bjarti og Örnu Dís kærlega fyrir skemmtileg viðtöl og biðjum fyrir góðri kveðju til allra hinna krakkana sem þau æfa með í GKG.

 

u12sigurlid2
u12sigurlid3
u12sigurlid

Fleiri skemmtilegar myndir frá því þegar GKG hreppti Íslandsmeistaratitil golfklúbba 12 ára og yngri í sumar.