Vefsvæði GKG á golf.is er og verður haldið við að einhverju leyti en hópur fólks mun vinna að því að gera heimasíðu GKG enn glæsilegri en hún nú er. Það er von okkar að félagsmenn verði ósparir á að gagnrýna og koma með hugmyndir að viðbótum og lagfæringum á síðunni. Með því móti getum við gert hana að góðu verkfæri og afburða afdrepi fyrir félagsmenn og áhugasama golfara.Öflug og virk heimasíða getur lagt grunninn að kröftugra félagstarfi í félagi eins GKG þar sem við félagarnir getum nálgast upplýsingar um klúbbinn okkar og veitt öðrum áhugasömum sömu upplýsingar. Eldri heimasíða þótti tæknilega vera nokkuð takmörkuð að undanskildu stórgóðu mótakerfi sem við að sjálfsögðu nýtum okkur áfram.
Við hófum grunnvinnu við undirbúning nýrrar síðu á haustmánuðum. Þá töldum við að félagasamtök eins og GKG þyrftu að uppfæra sinn kynningarmiðil til samræmis við kröfur dagsins í dag. Til verksins var fenginn Jón Hörðdal Jónasson sem hafði yfirumsjón með verkinu en Jón er einnig virkur félagi í GKG og starfandi í unglinganefnd klúbbsins. Hann sá m.a. alfarið um hönnun og sér um viðhald heimasíðu unglinga, https://gkg.is/unglingar, sem hefur verið í loftinu í nokkurn tíma. En honum til aðstoðar voru Ottó Sigurðsson markaðsstjóri GKG, Jóhann Gunnar framkvæmdastjóri og Róbert Björnsson sem vann ýmsa grafíska vinnslu fyrir síðuna.
Nýr vefur – nýjar hugmyndir – betri upplýsingagjöf. Grunn hugmyndin með nýrri heimasíðu var á þá leið að á undirsíðum hinna ýmsu nefnda og ráða kæmu betur fram í dagsljósið þeir mörgu þættir félagsstarfsins og hinir margþættu angar stjórnunar og reksturs golfklúbbs eins og GKG. Með fjölbreyttu efni, skjalasöfnum, myndasöfnum, dagatölum, skoðanakönnunum auk fjölda sjálfvirkra þátta sem sjá um skráningar rafrænt og upplýsingagjöf. Þetta allt saman verður væntanlega til þess að þjónusta við félagsmenn verður enn betri og öll upplýsingagjöf ætti að verða skilvirkari fyrir vikið.
Það er von okkar að www.gkg.is verði þér og öðrum til nota og ánægju um ókomna framtíð.