Þegar ég hóf störf í stjórn klúbbsins árið 2002 voru tæplega 900 félagsmenn í GKG en í dag 4 árum síðar hefur sú tala nánast tvöfaldast og eru félagsmenn nú um 1.550 manns (72% aukning) og ríflega 100 manns á biðlista. Þess má geta að við stofnun klúbbsins árið 1994 voru skráðir félagsmenn 241 og hefur félagsmönnum því fjölgað um um því sem næst 1.300 manns eða sexfaldast á þessum 12 árum. Ekki hefur orðið nein breyting á fjölda starfsmanna við stjórnun klúbbsins eða í rekstrareiningu hans frá árinu 2002 utan þess að fastráðnum starfsmönnum á vellinum hefur fjölgað um helming. Nú eru starfandi 4 fastir starfsmenn á vellinum, 1 á skrifstofu auk golfkennara klúbbsins. Ákveðið var árið 2005 af stjórn klúbbsins að fjölga mætti félögum í 1.600 sem yrði til þess að mögulega mætti auka tekjur klúbbsins og komast í fyrsta skipti yfir 100 milljónir í tekjur á einu ári

 Saga GKG er ekki löng og voru fyrstu ár klúbbsins með ákaflega tvísýnum rekstrargrundvelli, þar sem bjartsýnir frumherjar tóku af skarið og börðust fyrir tilvist klúbbsins. Stærstur hluti allrar uppbyggingar klúbbsins frá stofnun hefur að mestu leyti farið fram fyrir lánsfé sem er kostnaðarsöm leið en var væntanlega sú eina færa á þeim tíma. Á síðari árum hafa bæjarfélögin síðan komið af meiri krafti inn í reksturinn með auknum framlögum til barna og unglingamála auk þess sem augu bæjarfulltrúa hafa opnast fyrir forvarnargildi golfklúbbsins sem eins öflugasta íþróttafélags innan Kópavogs og Garðabæjar og eins fjölmennasta íþróttafélags innan UMSK.

 Félagsmenn GKG koma alls staðar að og er samsetning félagsmanna með þeim hætti að fjölmennasti hópurinn kemur úr Kópavogi þar sem um 36% félagsmanna búa, í Garðabæ búa um 29% félagsmanna, í Reykjavík 28%, Hafnarfirði um 5% og afgangurinn um 2% koma frá öðrum svæðum.

 Félagsgjöld í GKG eru nú um 70% af tekjum klúbbsins og eru að skila sér með ýmsum leiðum. Algengast er að greiðsla félagsgjalda fari fram með greiðslukortum og er jafnfram sú skilvirkasta. Gjaldinu eru í langflestum tilvikum skipt á 8 jafnar greiðslur. Klúbburinn innheimtir 3% gjald af félagsmanni til að standa straum af raunvirðingu og kostnaði þessu samfara. Það eru um 65% félagsgjaldanna eða um 47 milljónir greidd með þessum hætti og í flestum tilvikum eins og áður sagði eru félagsmenn að skipta greiðslum sínum í 8 greiðslur á tímabilinu frá 1. janúar til 1. ágúst. Fyrir þetta er klúbburinn að innheimta 3% gjald sem gefur auga leið að stendur engan veginn undir kostnaði við innheimtuna hvað þá vexti af upphæðinni allan þenna tíma. Þá er ótalin sú vinna við þessa innheimtuaðferð sem er þó nokkur.

 Strax við upphaf innheimtuferilsins eru félagsgjöld allra félagsmanna reiknisfærð eins og vera ber. Í kjölfarið er bætt við kostnaði á þá félagsmenn sem greiða með greiðslukorti 3% gjald vegna greiðsludreifingarinnar. Þessum færslum er síðan skipt á milli kortafyrirtækja og sent til innheimtu. Þar eru listarnir yfirfarnir og skýrsla send til baka sem sýnir með hvaða hætti gjöldin verða skuldfærð. Það sem á eftir kemur eru síðan afstemmingar, oft á tíðum töluverðar leiðréttingar og breytingar á innheimtum félagsmanna með öllum þeim mögulegu frávikum sem frekast er hægt að hugsa sér eftir óskum félagsmannanna sjálfra. Þetta er tímafrek vinna og kostnaðarsöm og tíminn sem í þetta fer mætti gjarnan nota í annað sem kæmi klúbbnum betur. Þá gerir þessi langi innheimtutími það líka að verkum að mæta þarf gríðarlegum fjárútlátum á vormánuðum og yfir hásumarið þegar mestar framkvæmdir eru og mest fjárþörf er, með lánsfé.

 Sá kostnaður sem klúbburinn innheimtir af greiðslukorta viðskiptum félagsmanna sinna eru um 1.410 þús. á yfirstandandi ári (2006), sem á að standa straum af raunvirðingu gjaldanna auk kostnaði við afstemmingar færslanna við viðskiptamannabókhaldið 8 sinnum á ári. Þá er öll vinna ótalin við breytingar, tilfærslur, lagfæringar, niðurfellingar, sameiningar, kortabreytingar o.fl., o.fl. sem þörf er á skv. óskum félagsmanna sem er töluverð vinna allt sumarið. Ef við ýmindum okkur að sama upphæð sem væri innheimt í einu lagi og bæri vexti í sama tíma (8 mán) á hefðbundnunm tékkareikningi væru vaxtatekjur af því 1.520 þús. Hugsi maður sér síðan að leggja þessa upphæð á sparisjóðsbók þá er væri um að ræða 8% – 12% vexti skv. vaxtatöflum bankanna. Ef reiknað væri einungis með 9% ávöxtun væru vaxtatekjurnar yfir 2.500 þús. á 8 mánaða tímabili eða ríflega helmingi meiri en nú er. Þetta er fjármagn sem væri verið að ávaxta í stað þess að greiða vext af lánsfé að öðrum kosti. Það sem líka þyrfti að taka með í reikninginn er sú vinna sem myndi sparast við innheimtur s.s. greiðsluskiptingu tilfærslu á kortanúmerum, sameiginlegur greiðandi fyrir ýmsa félagsmenn o.s.fr.v. er mikil og sá tími sem í það fer bæði aðkeypt og unnin innanhúss gæti nýst í annað.

 Ef þetta væri hugsað frá grunni myndi ég telja eðlilegast að félagsmaður sem hyggst vera í golfklúbbi greiði félagsgjaldið sitt í einu lagi á fyrirfram tilgreindum gjalddaga. Sjái hann sér hinsvegar hag í því að skipta greiðslum félagsgjaldsins á fleiri gjalddaga þá leiti hann til viðskiptabanka síns eða kortafyrirtækis og semji við þá um að greiðsludreifa og skipta greiðslum á þann hátt sem hentar félagsmanninum í hans tilfelli algjörlega óviðkomandi klúbbnum. Þetta er lítið mál að gera skv. upplýsingum frá kortafyrirtækjum og bönkum og í alla staði þægilegast fyrir báða aðila.

 Að mínu mati á klúbburinn ekki að vera í lánastarfsemi á fjármagni til að fjármagna félagsaðild félagsmanna sinna þegar ekki er lausafé til þess. Ég sé fyrir mér að halda mætti inni þeim möguleika að klúbburinn greiðsludreifi fyrir þá sem ekki hafa tök á að leita til fjármálastofnana vegna greiðsludreifingar en væri þá á forsendum sem hentaði fjárhag klúbbsins hverju sinni en væru að sama skapi líklega óhagstæðustu kostir félagsmannsins. Reyndin er líka sú að stór hópur félagsmanna hefur enga þörf né áhuga fyrir þessa löngu greiðsludreifingu félagsgjalda sinna, en sitja við sama borð og aðrir þar sem mismunandi kostir kalla á aukna vinnu og meiri kostnað fyrir báða aðila.

 Varðandi þá sem hingað til hafa greitt með greiðsluseðlum yrði gjaldögum fækkað úr fjórum í einn, þannig að gjalddagi greiðsluseðilsins væri 1. janúar með eindaga 1. mars. Það má heimfæra þetta á að tímabil greiðslunnar fari úr fjórum mánuðum (1. jan, 1. feb 1. mars og 1. apr) eins og nú er í þrjá (1. jan 1. feb og 1. mars þar sem gjaldaginn yrði 1. jan. og eindaginn 1. mars). Þar að auki væri einungis einn greiðsluseðill sem er gríðarlegur vinnusparnaður bæði við útsendingu og ekki síður við innfærslu innborgana og skráarsamskipti við banka og bókhald. Staðgreiðsla færi síðan fram eigi síðar en 1. mars. Með þessum hætti skila árgjöld sér inn fyrr og öll skipulagning fjármála og framkvæmda yrði miklu skipulagðari og árangursríkari. Þá mætti hugsa sér einhverskonar útfærslu á afsláttarfyrirkomulagi slilvísra greiðenda.

 Hægt væri að klára allt sem snýr að innheimtu félagsgjalda á tímabilinu frá 1. janúar til 1. mars þar sem að á þessum tíma er ekki mikið annað að gerast annað en forvinna að undirbúningi sumarsins og hægt að klára þennan þátt rekstrarins á þessum tíma. Þannig mætti segja að félagsgjaldið væri með gjalddaga 1. janúar og eindagi þeirra 1. mars í öllum tilvikum sama hvert greiðsluformið er. Eftir þann tíma væri sá félagsmaður sem ekki hefði gert skil á félagsgjaldi sínu tekinn af félagatali og fólk af biðlista tekið inn í staðinn í númeraröð. Settar yrðu strangari og ákveðnari reglur sem myndu gefa til kynna nákvæmlega hvernig inntaka nýrra félagsmanna færi fram og í hvaða röð og á hvaða tímabili.

 Gera mætti ráð fyrir að eitthvert brottfall yrði úr klúbbnum fyrst um sinn vegna þeirra stórvægilegu breytinga sem myndu líta dagsins ljós. Ég tel þó að það væri einungis tímabundið og þegar upp væri staðið myndi þessi ákvörðun verða klúbbnum og ekki síst félagsmönnum til framdráttar. Þá mætti einnig hugsa sér hvort hámarksfjöldi kylfinga í GKG gæti þá verið minni en 1.600 félagar, sem myndi að sjálfsögðu minnka álag á vellinum og auka möguleika kylfinga til að leika á vellinum þegar þeim hentar. Þetta myndi að mínu mati auk þess stórbæta lausafjárstöðu klúbbsins og gera okkur kleift að skipuleggja frekari uppbyggingu enn betur en nú er og stórauka gæði klúbbsins og vallarins til framtíðar.

 GKG er kominn í þá stöðu að umsóknir í klúbbinn hafa aldrei verið fleiri og allt umhverfi hefur breyst töluvert frá þeim tíma sem reynt var að gera inngöngu í klúbbinn aðlaðandi með allt of lágu félagsgjaldi og sem þægilegustum greiðslumáta. Nú er öldin önnur og tel ég það sé lag að snúa þessu meira í þá veru að fá til liðs við klúbbinn þá félaga sem geta og vilja standa skil á greiðslum og þar með aukið möguleika klúbbsins til frekari uppbyggingar á eigin fé en það er það sem klúbbur eins og GKG á að einbeita sér að á næstu árum. Ásókn í golfíþróttina er að stóraukast ár frá ári og þurfum við að aðlaga okkur að auknum kröfum og einbeita okkur að því að gera vallarsvæðið og alla umgjörð klúbbsins meira aðlaðandi en nú er. ÉG tel ekki rétt að gera það með lágum félagsgjöldum og kostnaðarsömum greiðsluaðferðum félagsmanna.

 Ég tel að þau vinnubrögð að koma sem flestum inn í klúbbinn eins lengi og mögulegt er yfir háannatímann til að ná settu hámarki félagsmanna kosti gríðarlega dýrmætan tíma sem komi einfaldlega niður á öðrum brýnni málum sem þarf að sinna þegar golftímabilið er hafið svo sem eins og almennri þjónustu við félagsmenn, vallarumhirðu, skipulagi, snyrtingu og fegrun vallarins og síðast en ekki síst eftirliti með agamálum kylfinga úti á velli. Ég tel að þegar öllu sé á botninn hvolft þá séu það þessi örfáu atriði sem skipti kylfinga hvað mestu máli.

Jóhann Gunnar Stefánsson
Framkvæmdastjóri GKG