Næstkomandi miðvikudag, þann 13.júní hefst hin árlega mótaröð GKG, sem undanfarin ár hefur verið kennd við Símann og Ping. Fyrirkomulagið verður að mestu eins og áður. Sjö mót verða haldin yfir sumarið og fara þau þannig fram að kylfingar skrá sig á rástíma á Leirdalsvellinum eins og um venjulegan hring væri að ræða. Áður en farið er út þá þurfa þeir sem ætla sér að taka þátt í mótinu að mæta í ProShop GKG, skrá sig og greiða mótsgjald kr. 1.500 krónur. Fá þeir þá í hendur skorkort sem skilað er inn að leik loknum. Keppt er með punktafyrirkomulagi og eru vegleg verðlaun fyrir flesta punkta í hvorum flokki á hverju móti. Stærsta keppnin er samt heildarkeppnin, en bestu fjögur mótin punktalega séð telja í heildarkeppninni og þeir sem spila stöðugt golf yfir sumarið eiga gott tækifæri á að vinna til veglegra verðlauna.
Í ár verða aðeins tveir flokkar, karlaflokkur og kvennaflokkur og hljóta bestu fimm í hvorum flokki verðlaun í heildarkeppninni. Verðlaunin hafa ekki enn verið ákveðin en benda má á að í fyrra voru glæsilegir símar í verðlaun og þar áður Ping driver-ar.
Allir sem vilja taka þátt í skemmtilegu innanfélagsmóti í sumar eru hvattir til að koma á miðvikudaginn og spila 18 holur á splunkunýja Leirdalsvellinum okkar!