Vallarstarfsmenn GKG hafa löngum glímt við þá tilhneigingu Vífillstaðarvallar að halda vatni mjög vel, kylfingum og öðrum til ama. Skýrist þetta auðvitað á því að landið sem GKG hefur til umráða var mikil mýri hér áður fyrr og golfvöllurinn hefur byggst upp á því, samanber heitið á 9 holu vellinum okkar: Mýrin.
Þrátt fyrir að aðkomuvatn sé alvanalegt hjá GKG þá keyrði þó um þverbak núna í lok ársins 2007, sérstaklega þann 30. desember þegar óveðrið mikla geysaði og hláka var mikil. Fylltist þá völlurinn af vatni og getum við GKG-ingar hugsað til þess næsta sumar ef boltinn okkar lendir í polli á 7. brautinni á Mýrinni að við höfum það ekki eins slæmt og eftifarandi mynd sýnir. Guðmundur vallarstjóri tók myndina fyrrnefndan dag og skemmtilegt er birta hana hér á vefsíðunni. Ætli maður fengi "frídropp" úr þessum polli?