Í ljósi mikillar aðsóknar að barnanámskeiðum 2007, þegar þeim var fjölgað um helming með því að halda námskeið bæði fyrir og eftir hádegi, verður sami háttur hafður á sumarið 2008. Alls verða því í boði 2 námskeið á dag í 8 vikur, eða alls 16 vikulöng golfnámskeið fyrir 5-12 ára börn hjá GKG í sumar. Námskeiðin fara fram virka daga frá kl. 9:00-12:00 og 13-16 eftirtaldar vikur:
9. – 13. júní
16. – 20. júní (4 dagar)
23. – 27. júní
30. júní – 4. júlí
Meistaramótsvikan
14. – 18. júlí
21. – 25. júlí
28. júlí – 1. ágúst
5. – 8. ágúst (4 dagar)
Markmið námskeiðanna er að kynna golfíþróttina fyrir börnunum og ýta undir áhuga þeirra á því að leggja stund á þessa göfugu íþrótt. Farið verður í alla helstu þætti golfleiksins, allt frá upphafshöggum til pútta og verður eitthvað sérstakt tekið fyrir á hverjum degi, gjarnan í formi golfleikja ýmiss konar. Einnig verður lögð áhersla á að kynna golfsiði og golfreglur fyrir nemendum.
Á námskeiðunum verður nemendum skipt í tvo aldurshópa, 5-8 og 9-12 ára. Áherslumunur verður á námsefninu eftir aldurhópunum og má því segja að hér séu tvö námskeið í gangi í einu. Meira verður lagt upp úr tæknilegum atriðum, krefjandi æfingum og golfreglukunnáttu í eldri hópnum. Yngri hópurinn mun frekar fást við léttar og skemmtilegar æfingar, keppnir af ýmsum toga og örlítið af golfsiðum og reglum. Þá verður reynt að lífga upp á námskeiðin með óhefðbundnum uppákomum Námskeiðum lýkur með grilli og afhendingu viðurkenningarskjals frá GKG.
Hámarksfjöldi þátttakenda á hverju námskeiði er 30 og kostar vikan 8.500 kr. Veittur er 20% systkinaafsláttur. Einnig er veittur 20% afsláttur ef sótt eru fleiri en eitt námskeið. Þá verður einnig veittur 20% afsláttur af þeim námskeiðum sem einungis standa í fjóra daga.
Yfirumsjónarmaður verður Haraldur Þórðarson, sem er menntaður íþróttakennari og golfkennari hjá GKG. Aðrir leiðbeinendur koma úr hópi afrekskylfinga úr klúbbnum, á aldrinum 15-21 árs, langflestir með verulega reynslu af námskeiðahaldi. Þess er sérstaklega gætt að hópar undir umsjón leiðbeinanda verði ekki skipaðir fleiri en 6 krökkum.
Barnaskóli Hjallastefnunnar, sem stendur öndvert við skála GKG, mun að nýju lána GKG kennslustofu sem miðstöð fyrir barnanámskeiðin. Þáttakendur mæta því þar í upphafi dags og verða sóttir þangað í lok dags. Börnin munu vitaskuld ekki fara yfir veginn nema í fylgd með leiðbeinendum.
Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu klúbbsins, www.gkg.is, þar sem skráning fer einnig fram rafrænt. Skráning hefst hjá GKG í byrjun maí 2008.