Athygli vekur í fréttum þessa dagana að afrekskylfingar GKG halda uppi merkjum íslenskra kylfinga á erlendri grund. Á meðan Birgir Leifur Hafþórsson atvinnukylfingur okkar á Evrópumótaröðinni bíður eftir næstu verkefnum berast góðar fréttir frá Bandaríkjunum af þeim Sigmundi Einari Mássyni og Alfreð Brynjari Kristinssyni auk þess sem Guðjón Henning Hilmarsson stóð sig frábærlega með íslenska landsliðinu á Kýpur í síðustu viku.
Birgir Leifur komst í gegnum niðurskurðinn í tveim síðustu mótum og í því síðasta í Portúgal blandaði hann sér í toppbaráttuna um tíma. Hann er greinilega að komast í gott keppnisform og það verður spennandi að fylgjast með honum í næsta móti sem verður í Sevilla 1. maí.
Sigmundur Einar hefur verið í miklu stuði að undanförnu. Hann sigraði á Hal Sutton mótinu í byrjun apríl og hann lauk sínu síðasta háskólamóti í Bandaríkjunum í öðru sæti eftir bráðabana. Mótið var gríðarlega sterkt og í frétt á Kylfingur.is kemur fram að hann rýkur upp heimslista áhugamanna. Þar kemur einnig fram að Sigmundur er eini íslenski áhugamaðurinn sem kemst inn á þennan lista.
Alfreð Bryjar gekk í raðir GKG í vetur úr GR. Alfreð er mikill fengur fyrir okkur í GKG og hann hefur verið að standa sig frábærlega með háskólaliði sínu, St. Andrews Presbyterian College. Alfreð fékk nýlega viðurkenningu fyrir góðan árangur á árinu 2008, sem þjálfarar allra skólanna í deildinni veittu. Hann hefur jafnan verið í toppbaráttu í mótum vetrarins.
Guðjón Henning er búinn að æfa stíft inni í vetur hjá þeim Úlfari og Derrick. Árangurinn lætur ekki á sér standa því Guðjón var að spila mjög vel á Opna áhugamannamótinuá Kýpur í síðustu viku. Hann hafnaði í 2. sæti eftir að hafa leitt mótið eftir tvo hringi.
Við hjá GKG óskum okkar frábæru kylfingum til hamingju með góðan árangur og vonum að þeim gangi vel í komandi verkefnum. Ég er þess fullviss að þessi frammistaða okkar manna er öðrum GKG kylfingum mikil hvatning.
Gunnar Páll Þórisson
Formaður Afreksnefndar