Sigmundur Einar Másson, afrekskylfingur GKG, bætti enn einni skrautfjöðrinni í hatt sinn er hann var útnefndur kylfingur ársins 2008 í bandarísku Southland Conference háskóladeildinni, SLC. Hann er fyrsti kylfingurinn frá McNeese háskólanum sem hlýtur þessa útnefningu. Sigmundur hefur staðið sig frábærlega á háskólamótaröðinni í ár, sérstaklega eftir áramótin. Nú hefur hann lokið viðskiptafræðinámi sínu við skólann og í haust ætlar hann að reyna fyrir sér sem atvinnukylfingur í Bandaríkjunm
Meðalskor Sigmundar á háskólamótaröðinni í ár er 73,2 högg en eftir áramótin er meðalskorið hans 72,5 högg. Hann hefur fimm sinnum verið á meðal fimm efstu og sigraði í einu móti og tapaði í bráðabana á lokamótinu um síðustu helgi.
Sigmundur Einar var einnig valinn í úrvalslið Southland Conference deildarinnar ásamt þeim Casey Clendenon frá Lamar háskóla, Scott Kelly frá Sam Houston State, Bobby Massa frá UT Arlington og Scotty Campbell frá Central Arkansas.
Frábær árangur hjá Simma og verður gaman að sjá hann spila fyrir GKG í sumar.