Afrekskylfingar GKG hafa svo sannarlega komið vel undan vetri og hafa spilað afar vel það sem af er sumri. Eins og frægt er orðið þá sigraði Ingunn Gunnarsdóttir fyrsta mót á Kaupþingsmótaröðinni á Hellu í lok maí, auk þess sem hún vann sigur í sínum flokki á fyrsta stigamóti unglinga sem fram fór á Hvaleyrarvelli Golfklúbbsins Keilis um helgina.
Ingunn var þó ekki eini sigurvegari GKG þar því Ari Magnússon vann einnig glæsilegan sigur með fimm högga mun í sínum flokki. Ari spilaði glæsilega á 72 höggum fyrri hringinn (1 höggi yfir pari) en seinni hringnum var aflýst vegna afleits veðurs.
Þetta er flott byrjun á sumrinu hjá GKG og gaman verður að fylgjast með okkar fólki á næstu vikum, því greinilegt er að stífar vetraræfingar hafa skilað sér og nú uppskera þau eins og þau hafa sáð.